Breytingaskeiðið er viðkvæmt umræðuefni

Velferð 9. jún 2023

Allar konur ganga í gegnum breytingaskeið á einn eða annan hátt. Einkenni og afleiðingar eru margbreytileg og hver kona upplifir breytingaskeiðið á sinn einstaka hátt; sumar sigla tiltölulega létt í gegnum þetta á meðan aðrar glíma við lífshamlandi einkenni,“ segir Halldóra Skúladóttir markþjálfi í nýjasta tölublaði Skólavörðunnar.

Alls voru 59 þúsund konur á aldrinum 40 til 65 ára í byrjun ársins. Halldóra segir það vera þann aldur þegar einkenni breytingaskeiðs geti valdið hvað mestum vandræðum. „Konur á þessum aldrei eru oftast búnar með barneignir, hafa menntað sig og komið sér fyrir á vinnumarkaði þegar breytingaskeiðið hefst.“

Samkvæmt könnun á 3.800 konum, sem var gerð af Newson Health Research and Education í Bretlandi, sögðust um 76% kvenna finna fyrir meðal til mjög miklum einkennum og í sömu könnun sögðust rúmlega 90% kvenna ekki geta leitað til yfirmanns síns varðandi einkenni og stuðning. Um 59% kvenna höfðu tekið leyfi frá vinnu, 18% minnkuðu starfshlutfall og 12% hættu störfum vegna áhrifa sem einkennin höfðu á starfsgetu. Í sömu könnun sögðu 41% kvenna að einkenni breytingaskeiðsins leiddu til meiri mistaka í starfi.

„Þetta eru sláandi tölur,“ segir Halldóra og bætir við að flestir vinnustaðir séu með ýmsar viðbragðsáætlanir til að skapa öryggi fyrir starfsfólk, svo sem er kemur að einelti, kynbundinni eða kynferðislegri áreitni, ofbeldi, fjarvistum og veikindum. „Það er afar mikilvægt að taka þessar áætlanir til skoðunar og aðlaga þær að þeim afleiðingum sem geta myndast vegna einkenna breytingaskeiðsins. Áhrif breytingaskeiðsins geta hafa mikil áhrif á konur og því er brýnt að sérsníða viðbragðsáætlanir og gátlista er lúta að þessu skeiði í lífi kvenna á vinnumarkaði,“ segir Halldóra.

Alltof margir dagar tapast

Talið er að um 14 milljón vinnudagar tapist á Bretlandi á ári hverju vegna einkenna breytingaskeiðsins. Halldóra segir að ef þessi tala sé heimfærð yfir á Ísland þá megi gera ráð fyrir að 75 þúsund vinnudagar tapist árlega. „Með því að vera með vel útfærða áætlun um viðbrögð vegna breytingaskeiðs geta vinnustaðir tryggt að allt starfsfólk sem á í hlut upplifi skilning og njóti stuðnings yfirmanna og samstarfsmanna.“

Fræðsla og umræða um breytingaskeiðið er mikilvæg að mati Halldóru. „Breytingaskeiðið hefur verið geymt í myrkrinu og því hefur oft og tíðum fylgt skömm og um leið skortur á skilningi og stuðningi. Ef við ætlum að snúa við þeim fordómum sem konur á breytingaskeiði hafa mætt hingað til þarf fræðslu fyrir allt starfsfólk, umræðan þarf að vera styðjandi og búa þarf til umhverfi sem er öruggt, þannig að kona geti leitað til yfirmanna án þess að óttast útskúfun eða smánun,“ segir Halldóra.

Breytingaskeiðið er, að sögn Halldóru, viðkvæmt umræðuefni og brýnt að það sé rætt á nærgætinn hátt svo engum finnist spjótum beint að sér. „Þetta má gera með því að bjóða upp á fræðsluerindi á vinnustaðnum, skapa umræðu á starfsmannafundum og fjalla um málið í fréttabréfum, svo dæmi séu tekin. Markmiðið á að vera að öllum sé kunnugt hverjar boðleiðirnar eru og hvert á að leita eftir aðstoð og stuðningi. Það getur verið hjálplegt að útnefna ákveðinn aðila sem „breytingaskeiðs-aðila“. Það er þá aðili sem hefur fengið þjálfun og öðlast skilning á einkennum og afleiðingum breytingaskeiðsins. Verkefnið er að finna lausnir fyrir hvern einstakling.“

Frétt af vef Kennarasambandsins.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí