Ellefu aðildarfélög BSRB og Samband íslenskra sveitarfélaga undirrituðu nýjan kjarasamning á áttunda tímanum í morgun. Lauk þar með 14 klukkustunda samningatörn samninganefndar BSRB. Verkfallsaðgerðum 2500 félagsmanna aðildarfélaga BSRB í 30 sveitarfélögum hefur verið aflýst.
Mánaðarlaun hækka að lágmarki um 35.000 kr. og desemberuppbót á árinu 2023 verður 131.000 kr. Samkomulag náðist um sáttagreiðslu að upphæð 105.000 kr. eftir að ríkissáttasemjari lagði fram innanhústillögu á fjórða tímanum í nótt. Auk þess var samið um hækkun á lægstu launum og viðbótargreiðslur fyrir tiltekin starfsheiti. Samningurinn gildir frá 1. apríl 2023 til 31. mars 2024 og nær til um 7000 félagsmanna BSRB.
„Það hefur verið magnað að upplifa kraftinn, samstöðuna og baráttuþrekið meðal félagsfólks okkar síðustu vikur sem og stuðning samfélagsins,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB. Margt jákvætt má finna í samningnum. „Við getum verið hóflega sátt við þessa niðurstöðu. Lægstu laun hækka verulega auk þess sem við fengum sáttagreiðslu samþykkta og hækkun á tiltekin starfsheiti.“
Félögin sem gera kjarasamninginn eru:
- Félag opinbera starfsmanna á Austurlandi
- FOSS – stéttarfélag í almannaþjónustu
- Kjölur – stéttarfélag starfsmanna í almannaþjónustu
- Sameyki – stéttarfélag í almannaþjónustu
- Starfsmannafélag Garðabæjar
- Starfsmannafélag Húsavíkur
- Starfsmannafélag Hafnarfjarðar
- Starfsmannafélag Mosfellsbæjar
- Starfsmannafélag Kópavogs
- Starfsmannafélag Suðurnesja
- Starfsmannafélag Vestmannaeyjabæjar
Á næstu dögum munu aðildarfélög BSRB kynna samningana fyrir sínu félagsfólki. Eftir það verða samningarnir bornir undir atkvæði félagsmanna.
Frétt af vef BSRB.