Heimspeki prófessorinn, guðfræðingurinn, pólitíski aðgerðarsinninn og samfélagsgagnrýnandinn með meiru Cornel West hefur tilkynnt að hann ætli að taka slaginn í bandarísku forsetakosningunum 2024.Tilkynnti hann þetta í myndbandi sem hann birti á Twitter. Mun West leitast við að bjóða sig fram sem þriðji aðili, fyrir Flokk fólksins (People’s Party).
Einn háværasti gagnrýnandi nýfrjálshyggjunnar
Áður hafa Joe Biden, núverandi forseti, Marianne Williamson, og Robert F. Kennedy Jr. tilkynnt framboð sitt fyrir hönd Demókrata, og Donald Trump, Nikki Haley, Mike Pence, o.fl. tilkynnt framboð sitt fyrir hönd Repúblikanaflokksins. Eins og staðan er nú, lítur allt út fyrir að baráttan muni fyrst og fremst vera önnur lota milli Biden og Trump.
Cornel West var eindreginn stuðningsmaður Bernie Sanders og framboðs hans í síðustu kosningum, en eftir að sá síðarnefndi tilkynnti að hann myndi ekki bjóða sig aftur fram, og hvatti til stuðnings Biden, þá hefur West ákveðið að bjóða sjálfur fram.
Cornel West hefur verið ákafur og hávær gagnrýnandi nýfrjálshyggju þróun Bandaríkjanna í átt að sífellt meiri ójafnaðar og félagslegs óréttlætis, ástand sem hann hefur nokkrum sinnum lýst sem andlegu gjaldþroti. Stefnur hans, eins og hann lýsir þeim í tilkynningu sinni, er t.d. gjaldfrjáls heilbrigðisþjónusta fyrir alla, að þrýstihópar eða lobbíismi verði alfarið bannaður, að leggja NATO niður, stöðvun á allri hernaðaraðstoð til erlendra ríkja, ásamt því að öllum námslánaskuldum verði útrýmt
Tvíflokka stjórnmálakerfi Bandaríkjanna
Ekki er þó hægt að gera sér miklar vonir um að hann verði sérlega sigurstranglegur í komandi kosningabaráttu. Ekki einungis vegna róttækra vinstri stefna hans, heldur fyrst og fremst vegna tvíflokkakerfis bandarískra stjórnmála. Enginn hefur nokkurn tímann unnið forsetakosningar Bandaríkjanna sem þriðji frambjóðandi í gervallri sögu þeirra. Sá sem hefur komist næst því er Theodore Roosevelt árið 1912, en hann komst í annað sætið í framboði sínu fyrir The Bull Moose party. Fékk hann fleiri atkvæði en frambjóðandi Repúblikana, William Howard Taft, en tapaði þó á endanum fyrir Demókratanum Woodrow Wilson.
Roosevelt hafði þó einnig verið forseti áður, sem gaf honum auðvitað mikið forskot. Á síðari tímum hefur engum tekist að leika þetta eftir, þótt Ross Perot tókst samt að fá 18,9% atkvæða í forsetakosningunum árið 1992 – hið mesta sem þriðja aðilar frambjóðandi hefur fengið síðan Theodor Roosevelt. Perot fékk hinsvegar engin kjörmanna atkvæði, svo hann var í rauninni aldrei nálægt forsetastólnum.
Mörg ljón í veginum
En þrátt fyrir að Cornel West sé vægast sagt gríðarlega ólíklega að fara nokkurn tímann að bera sigur úr býtum, þá getur frambjóðandi haft mikil áhrif á kosningarbaráttuna og umræðuna – eins og framboð Bernie Sanders sýndi skýrt fram á. Sá mikli innblástur og von sem framboð Bernie Sanders, ásamt Barack Obama, blés fólki í brjósti er eitthvað sem Cornel West gæti alveg leikið eftir, og mögulega á enn stærri hátt miðað við persónutöfra hans og mælsku.
Það er þó ekki líklegt að Demókratar yrði sérlega hrifnir af því, en viðbrögð forystufólks Demókrataflokksins var ekki sérlega hrifið af velgengni Bernie Sanders, og beittu allskyns slímugum brögðum til að leggja stein í götu hans – þrátt fyrir að hann væri í framboði fyrir þeirra eigin flokk. Það er erfitt að ímynda sér að þau yrðu eitthvað hrifnari af Cornel West í framboði sem þriðji aðili.
Ef Cornel West nær svo að byggja einhverja stóra pólitíska hreyfingu, þá gæti það auðvitað leitt til þess að hann dragi atkvæði frá Demókrötum fyrst og fremst – sem myndi einungis þjóna þeim tilgangi að færa Trump forsetastólinn aftur á silfurfati. Það er a.m.k. víst að þetta mun vera ein helsta gagnrýni Demókrata á hann og hans framboð. People’s Party er nýr flokkur, stofnaður 2017. Nafnið sækir hann til vinstrisinnaðs popúlísks flokks sem var róttækt afl í Bandaríkjunum um skamma hríð fyrir þar síðustu aldamót og hafði þá umtalsvert fylgi.
Ekkert er víst í þessum málum ennþá. Nema þá kannski þetta: ef það er einhver sem getur gert þessar forsetakosningar áhorfanlegar, þá er það Cornel West.
Hér má heyra Cornel West tala um svik menntastéttanna við hin fátæku: