Nýsköpunarsjóður missti af 28 milljarða hagnaði vegna Kerecis

Fyrir tæpum níu árum seldi Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins tæplega 26% hlut í Kerecis. Sjóðurinn átti mest 30% hlut í félaginu sem selt var á um 175 milljarða króna um daginn. Hlutur Nýsköpunarsjóðs hefði orðið um 28,4 milljarðar króna af þeirri sölu. Það er ef sjóðurinn hefði ekki selt hlut sinn fyrir aðeins um 1% af þeirri fjárhæð.

Þetta er aðeins eitt dæmi, en líklega það mest sláandi, um gallann við uppbyggingu Nýsköpunarsjóðs. Sjóðurinn veðjar á nýsköpunarfyrirtæki og tekur á sig tapið á þeim sem ekki ganga upp. Sem á við flest fyrirtækin. En sjóðurinn selur snemma í þeim fyrirtækjum sem ná að komast yfir núllið og missir því af arðinum af sínum bestu fjárfestingum. Sjóðurinn er ekki rekinn til að nýta hagnaðinn af bestu fjárfestingum sínum til að auka enn við nýsköpun í samfélaginu. Markmiðið virðist vera að taka á sig tap fyrir aðra fjárfesta.

Sjóðurinn er því skilgetið afkvæmi nýfrjálshyggjuáranna, ætlað fyrst og fremst að styrkja fjármagns- og fyrirtækjaeigendur.

Ríkið lagt 18,8 milljarða til sjóðsins

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins hóf starfsemi á ársbyrjun 1998. Með stofnun sjóðsins var stefnt að því að tryggja aðgengi að fjármagni á fyrstu stigum nýsköpunarfyrirtækja, þegar beinum opinberum styrkjum sleppir. Markmið sjóðsins var að efla íslenskt atvinnulíf, skapa skatttekjur, gjaldeyri og bætt lífsgæði í formi hugverka og atvinnu, eins og sjóðurinn lýsir sjálfur markmiðum sínum.

Upphaflegt stofnfé sjóðsins 1998 var 4 milljarðar króna. Á þeim tíma sem liðinn er hefur ríkissjóður í tvígang veitt viðbótarframlag til sjóðsins, milljarð árið 2005 og 1,5 milljarða króna árið 2007. Á núvirði er stofnframlagið 13 milljarðar króna og viðbæturnar 5,8 milljarðar króna, samtals 18,8 milljarðar króna. Um síðustu áramót var eign sjóðsins í fyrirtækjum metin á 2,4 milljarða króna og eigið fé sjóðsins á 4,6 milljarða króna.

Seldi hlut í Bláa lóninu ódýrt

Sjóðurinn hefur því tapað miklu fé frá stofnun. Og það er ekki vegna þess að hann hafi veðjað á vitlaus fyrirtæki sem ekkert hafi orðið úr. Auðvitað á það við um mörg fyrirtæki en alls ekki öll. Fleiri fyrirtæki en Kerecis hafa hækkað mikið í verði eftir að Nýsköpunarsjóður lagði til þeirra fé og síðan enn frekar eftir að sjóðurinn seldi sinn hlut. Meðal slíkra fyrirtækja sem sjóðurinn fjárfest í og seldi síðar hlut sinn í eru Bláa lónið, Decode, Greenqloud, Clara, Betware, Kerecis, Hafmynd, Stjörnu-Oddi, Primex, Videntifier, Nikita, Metan, Taugagreining, Valka, Menn og mýs.

Nýsköpunarsjóður seldi sinn hlut í Bláa lóninu 2004 þegar eigið fé félagsins var 2,2 milljarðar króna á núvirði. Um síðustu áramót var eigið féð 11,3 milljarðar króna á núvirði. Og á umliðnum árum hefur Bláa lónið greitt hluthöfum umtalsverðar arðgreiðslur. Hlutafé félagsins var metið á um 60 milljarða króna í fyrra miðað við söluverð hluta í því. Sala Nýsköpunarsjóðs á 14,4% hlut í Bláa lóninu árið 2004 nemur um 501 m.kr. á núvirði. Sá hlutur er rúmlega 8,6 milljarða króna virði í dag. Verðmætaaukningin og arður af rekstrinum síðan þá hefur runnið til núverandi eigenda og þeirra sem hafa selt sinn hlut nýverið.

Seldi hlut í Kerecis á 1% af endanlegu verði

Nýsköpunarsjóður seldi 2014 tæplega 26% hlut sinn í Kerecis til Guðmundar Fertram Sigurjónssonar og íslenska fjárfesta sem hann safnaði saman. Þetta var restin af hlut Nýsköpunarsjóð en árið 2013 var hlutur hans 30% af hlutafé Kerecis samkvæmt ársreikningi. Allt hlutafé Kerecis var selt um daginn á um 175 milljarða króna. Hlutur Nýsköpunarsjóðs er ekki 30% af þeirri fjárhæð, því aukið var við hlut Kerecis frá því að Nýsköpunarsjóður seldi sinn hlut. Miðað við lækkun hlutar BBL 34 ehf., sem er félag í eigu Guðmundar Fertram og fleiri úr 26,2% árið 2014 í 12,4% í árslok 2021 má ætla að 30% hlutur Nýsköpunarsjóðs hafi þynnst úr 30% í 14,2% áður en salan átti sér stað. Og hafi því verið rúmlega 28,4 milljarða króna virði í sumar. Hluturinn var því er 1,3 verðmætari en það sem ríkið hefur lagt til sjóðsins fá upphafi.

Söluverðið 2014 var ekki gefið upp, en augljóst er að það var aðeins brot af þessum 52,5 milljörðum króna.

Þetta ár seldi Nýsköpunarsjóður líka 22,5% hlut sinn í Primex ehf. til útgerðarinnar Ramma hf. í Fjallabyggð, en eftir kaupin átti Rammi um 79% hlut í félaginu. Aðrir eigendur voru Samherji og Síldarvinnslan á Neskaupstað. Primex var stofnað á Siglufirði árið 1997 og vinnur efnið kítósan úr rækjuskel. Efnið er notað í vörur á borð við lyf, fæðubótarefni, smyrsl, snyrtivörur og matvæli. Í dag á Rammi allt hlutaféð. Hagnaður þess var 132 m.kr. í fyrra og eigið féð rúmar 720 m.kr.

2014 seldi Nýsköpunarsjóður líka 11,1% hlut sinn í félaginu Alur – álvinnsla til félagsins Krastus þar sem Stefán Arnar Dórisson og Eyþór Laxdal Arnalds voru aðaleigendur. Alur vinnur álgjall sem fellur til við frumframleiðslu áls hjá álverunum.

Samanlagt söluverð hluta Nýsköpunarsjóðs í þessum þremur fyrirtækjum var um 691 m.kr. á núvirði. Sé miðað við eigið fé þessara félaga og hlut Nýsköpunarsjóðs má ætla að salan á hlutunum í Kerecis hafi verið um 40% af þessari upphæð eða um 275 m.kr.

Það er um 1% af söluverði hlutarins nú í sumar.

Kerfið miðast að því að færa hagnað til einkaaðila

Það sést af sögu Nýsköpunarsjóðs að hann brennur peningum, þeir ávaxtast ekki og vaxa ekki til að auka afl sjóðsins til nýsköpunar. Meginástæðan er að sjóðurinn selur þær eignir sem eru einhvers virði allt of snemma, rétt í þann mund að ljóst er að framlag sjóðsins til fyrirtækja muni ekki tapast. Þetta gerir sjóðurinn til að geta keypt ný hlutabréf í nýrri fyrirtækjum.

Þetta kerfi veldur því að hinn opinberi sjóður situr uppi með tap af fjárfestingum sínum en um leið og ljóst er að hlutir tapast ekki eru þeir seldir og þar með er framtíðarhagur af fjárfestingu hins opinbera fluttur frá ríkinu til einkaaðila, sem fá til sinn allan arð af bestu fjárfestingum Nýsköpunarsjóðs.

Þetta sístem er eins og grínútgáfa af fjárfestingarsjóðum sem einbeita sér að fjárfestingum í nýsköpun. Þar gengur kerfið út á að örfáar fjárfestingar skili hagnaði sem réttlæti tap á megninu af öllu sem fjárfest er í. Í tilfelli Nýsköpunarsjóðs velja stjórnendur að sitja uppi með allt tapið en neita sjóðnum um hagnaðinn af bestu fjárfestingunum. Það er innbyggt inn í sjóðinn að einkaaðilar eigi að njóta þess hagnaðar, ekki sjóðurinn sjálfur og þar með hið opinbera. Sem kallast almenningur öðru nafni.

Myndin er af Helga Valfells, framkvæmdastjóra Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins árið 2014 þegar salan fór fram, og Guðmundi Fertram Sigurjónssyni, stofnana Kerecis og eins þeirra sem keypti hlutinn.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí