„Hnignun breska lestarkerfisins hefur mikið verið rædd síðustu misseri. Mislukkuð einkavæðing, gallað rekstrarfyrirkomulag, slök stjórnun, undirfjármögnun og vinnudeilur hafa veikt þessa mikilvægu innviði í landinu. Þetta gerist á sama tíma og vaxandi áhugi er á lestarsamgöngum sem vistvænum samgöngumáta,“ skrifar Óðinn Jónsson blaðamaður á vef Túrista og rekur svo raunir sínar sem farþega í þessu hrörnandi lestarkerfi.
Óðinn tók á mánudagsmorgni flugvallarlestina til Manchester frá Lime-stöðinni í Liverpool. Óðinn segir þetta enga hraðlest, hún komi við á mörgum stöðum á leiðinni.
„Á miðri leið stöðvaðist lestin við litla úthverfisstöð og fór ekki af stað aftur. Farþegar dæstu. Hvað nú?“ segir Óðinn frá. „Lestarstjórinn tilkynnti um bilun. Svo sást hann ganga, sveittur af örvæntingu, fram og til baka á lestarpallinum með síma við eyrað. Ekkert gerðist í góða stund. Ekki kom önnur lest eða rútur að flytja farþegana á flugvöllinn. Ekkert starfsfólk birtist til að aðstoða vesalings lestarstjórann. Sumir farþeganna létu sig hverfa, reyndu að ná í leigubíla. Allt í einu tilkynnti lestarstjórinn að hann kæmi lestinni inn í miðborg Manchester. Fólk stökk aftur inn í lestina sem náði inn í miðborgina. Þar var fólk beðið að yfirgefa hana og taka aðra lest sem færi á flugvöllinn.“
„Auðvitað getur allt bilað og vesalings lestarstjórinn margítrekaði afsökunarbeiðnir sínar fyrir hönd fyrirtækisins. Hann var augljóslega pirraður út í kompaníið. En það var dæmigert fyrir ástand lestarsamgangna í Bretlandi að sjá hversu léleg viðbrögð lestarfyrirtækisins voru: Að ekki kæmi starfsfólk að leiðbeina farþegum. Ekkert varaplan virtist til staðar,“ skrifar Óðinn á Túrista.
„Bágt ástand lestarkerfis Bretlands hefur lengi blasað við notendum,“ bendir Óðinn á og rekur svo hörmungarsögu lestarkerfis Bretlands. „Þessir nauðsynlegu innviðir hafa drabbast niður frá því einkavæðing þeirra hófst undir forystu Íhaldsmanna. Tekjur í kerfinu voru ekki nægar til að standa undir endurnýjun innviða og kröfum hluthafa um arð. Nú neyðist ríkið til að grípa í taumana.
Hvað verst er ástandið á Norður-Englandi. Einkarekin fyrirtæki eins og FirstGroup, sem t.d. á lestarfyrirtækin Avanti West Coast og að hluta TransPennine Express, sem bæði þjóna norðanverðu Englandi og Skotlandi, hafa sætt mikilli gagnrýni fyrir niðurskurð á þjónustu, seinkanir, niðurfellingar á ferðum, troðning í lestum og bága þjónustu við fatlaða. Ástandið er ekki miklu betra á NorthernRail, sem enn er í opinberri eigu en er mjög laskað eftir niðurskurð á rekstrarfé og áhrifin af Covid-19.
Bretland er nú 29 sæti í heiminum yfir bestu járnbrautarlöndin – á milli Kasakstan og Indlands – á lista The Global Economy. Í anda hugmynda óhefst markaðsbúspar var ekki talið rétt að ríkisvaldið ræki samgöngufyrirtæki, miklu hagkvæmara væri fyrir neytendur og samfélagið að fela það einkaaðilum. Þessi stefna hefur beðið skipbrot og þau sem gjalda fyrir eru notendur og umhverfið.
Lestarsamgöngur eru margfalt vistvænni en einkabíllinn og nú þegar aðrar Evrópuþjóðir vinna að því að efla lestarsamgöngur sínar til að draga úr losun þá sitja Bretar uppi með stórlaskað kerfi, sem að stórum hluta er í höndum einkaaðila sem taka hámarksgróða fram yfir almannaþjónustu, og undirfjármagnaðs og vanmáttugs ríkisrekstrar. Gagnrýni á þetta hefur ekki skilað sér í miklum breytingum. Ríkið hefur fækkað sérleyfissamningum um lestarsamgöngur og tekið upp í staðinn beina verktakasamninga. Lestarfyrirtækin fá þá fastar greiðslur fyrir tímabundna samninga og bónusgreiðslur fyrir árangur í stað tekna af miðasölu. Þetta hefur leitt til þess að lestarfyrirtækin ráðast síður í nauðsynlega endurnýjun vegna þess að þau eru á skammtíma samningum og kerfið drabbast niður. Fögur orð og áform um endurbætur hafa ekki skilað sér. Lestarkerfi Bretlands heldur áfram að hnigna. Verkamannaflokkurinn hefur lýst því yfir að hann muni þjóðnýta lestarkerfið um leið og samningar lestarfélaganna renni út. Þá lýkur tilraun sem valdið hefur gríðarlegum skaða fyrir samfélagið og stöðu Bretlands. Hins vegar á eftir að koma í ljós hvernig ríkisvaldinu tekst upp í þessum rekstri.
Staða lestarsamgangna í Bretlandi er merki um hnignun landsins, Bretar hafa verið að dragast aftur úr á mörgum sviðum – ekki síst eftir Brexit. En vonandi komast Bretar aftur á rétt spor. Fyrirtækjunum sem reka lestarfelögin hefur ekki tekist að skapa gott samband við starfsfólk, verkföll eru tíð og erfiðlega gengur að ráða í störf sem losna. Ekki er nægilega fjárfest í nauðsynlegum innviðum og rekstrarfyrirkomulagið hefur reynst stórgallað. Á sama tíma fer áhugi fólks á að ferðast með lestum mjög vaxandi.
Lestaferð er vistvænn og þægilegur samgöngumáti – ef lestin kemur á réttum tíma og er ekki yfirtroðin af fólki,“ bendir Óðinn á í lokin.