Samkvæmt nýjum tölum frá bresku góðgerðasamtökunum The Trussel Trust, sem sjá m.a. um að deila út mataraðstoð, þá glímdi einn af hverjum sjö bretum við hungur á síðasta ári vegna fátæktar.
Þetta samsvarar 11,3 milljónum manns – sem er meira en tvöfaldur íbúafjöldi alls Skotlands.
Tölurnar koma fram í nýrri skýrslu sem birt var í gær. Bendir hún á velferðarkerfi sem virkar ekki sem skyldi sem orsökina, ásamt því að kostnaður á nauðsynjavörum og húsnæði hefur rokið uppúr öllu valdi. Bendir hún á sama tíma á að það líti ekki út fyrir að þessi krísa sé á neinu undanhaldi.
Verðbólgan hefur leikið Bretland grátt, eins og önnur lönd. Samkvæmt tölum frá hinu opinbera er um að ræða versta fall í lifnaðarkjörum á síðustu tveimur árum síðan að byrjað var að taka saman sambærilegar tölur á 6. áratugnum.
The Trussell Trust rekur 1.300 matarbanka sem deila út mataraðstoð til þeirra sem þurfa á því að halda víðsvegar um Bretland. Á síðasta ári var met slegið þegar deilt var út 3 milljónum matarpakka. Var það 37% prósent aukning frá árinu á undan, og meira en tvöfalt meira en frá því fyrir fimm árum.
Samtökin segja að 7% íbúafjölda Bretlands reiðir sig á góðgerðasamtök til þess að eiga til hnífs og skeiðar, þar á meðal gjafir frá matarbönkum, en á sama tíma leita 71% af þeim sem glíma við hungur ekki til neinna samtaka.