Hraðari heimur, tækninýjungar og aukið stress eru nýjar tilgátur á því hvers vegna tilkynningum til barnaverndar um áhættuhegðun barna, ofbeldi og vímuefnanotkun. Enn á ný er skautað algerlega framhjá áhrifum aukinnar fátæktar.
Yfirlæknir Barna- og unglingadeild Landspítalans (BUGL) var til viðtals hjá mbl.is og talaði um ógnvænlegar tölur sem bárust frá Barna- og fjölskyldustofnun um aukningu tilkynninga. Eins og kom fram í vikunni þá hefur tilkynningum um áhættuhegðun fjölgað um 31,8% og tilkynningum um vímuefnaneyslu barna um 118,9% á milli áranna 2021 og 2023.
Björn Hjálmarsson, yfirlæknir BUGL, er nú þriðji aðilinn í röð innan úr kerfinu sem ræðir sínar persónulegu tilgátur. Framkvæmdastjóri Barnaheilla, Tótla Sæmundsdóttir hafði tekið undir með Ólöfu Ástu Farestveit, forstjóra Barna- og fjölskyldustofu í vikunni um þá tilgátu að áhrif Covid tímans og samkomutakmarkana væri líklegasta svarið.
Björn segir í dag að það sé „engu líkara en þessar samfélagsbreytingar sem hafa orðið upp úr aldamótum séu svo hraðar að það séu bara öflugustu börnin sem ráða við þetta og þau sem eru með flókin frávik í taugaþroska eða búa við erfiðar félagslegar aðstæður virðist eiga erfitt með hraðann. Ég held að það sé það sem tölur barnaverndar eru að sýna“.
Aukinn hraði og streita í samfélaginu séu þannig áhrif stafrænna miðla og snjallsíma ef marka má orð hans um áhrif hins stafræna. „Ég óttast að við séum ómeðvitað að ræna bernskunni frá börnunum okkar. Ómeðvitað eru þau farin að lifa eins og fullorðnir og það sem er kannski mest himinhrópandi er þessi stafræna bylting og þessi nánast takmarkalausi aðgangur barna að efni sem er þeim sannarlega skaðlegt.“
Nú hefur Samstöðin fjallað endurtekið um þessar tölur frá Barna- og fjölskyldustofu, sem og tilgátur Ólafar og Tótlu. Covid tíminn var áhrifamikill á foreldra jafn sem börn, enda kvíðavaldandi tími með alls kyns skerðingum á félagslegum lífsgæðum. Vissulega er margt til í því sem Ólöf og Tótla segja um það.
Sömuleiðis má ekki vanmeta áhrif samfélagsmiðla á börn, rétt eins og fullorðna, en lengi hefur verið varað við því hvernig stöðugt áhorf og viðvera á þeim getur aukið kvíða og þunglyndi meðal annars.
Hins vegar má staldra við eitt athyglisvert í orðum Björns. Hann segir „öflugustu“ börnin ráða við þessar breytingar betur en þau sem „búa við erfiðar félagslegar aðstæður“. Með öðrum orðum að börn eru veikari fyrir ýmsu neikvæðu ef þau búa við erfiðar félagslegar aðstæður. Björn er þarna afar nærri því að hitta óvart á þá mikilvægu staðreynd þó hann sé greinilega of upptekinn við þá röksemd að tæknibreytingum sé um að kenna til að hamra á þeim punkti.
Það sem Samstöðin hefur vakið athygli á hvað þetta mál varðar er að einmitt á þessu sama tímabili, frá Covid tímanum og til dagsins í dag, hefur fátækt aukist mjög.
Í tölum Sameinuðu þjóðanna frá 2023 kom fram að fátækt meðal íslenskra barna jókst næstmest af öllum ESB-OECD löndunum, eða um 11% á milli áranna 2012-2014 til 2019-2021.
Í tölum Barnaheill frá mars á síðasta ári kom fram að fjöldi barna á Íslandi sem búa við fátækt var 13,1% allra barna árið 2023, en talan var 12,7% árið á undan.
Barnaheill benti þá á að efnahagslegt árferði væri að gera ástandið verra, mikil verðbólga og húsnæðiskreppa væri að auka á fátækt meðal barna. Þannig nefndu Barnaheill að eitt af hverjum fimm börnum sem búa í leiguhúsnæði eiga í hættu á fátækt og 8,2% þeirra búa bókstaflega við skort.
Nú vita allir að ástandið hefur hríðversnað síðan. Leiguhelsið hefur stigmagnast, þar sem leiguverð hækka fimmfalt meira en verðbólgan á milli mánaða og lífskjör skreppa saman í hverjum mánuði, í hvert skipti sem farið er út í búð. Verðbólgan er aftur á uppleið, einna helst vegna húsnæðiskreppunnar og aukins kostnaðar matarkörfunnar. Íslenskt samfélag er á leið í brotlendingu sagði Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins í gær um nýjustu verðbólgutölur og stýrivexti.
Þegar rætt er um aukna tíðni félagslegra vandamála meðal barna og ungmenna þá þarf því að benda á fílinn í stofunni. Fátækt er helsi og hún hefur eyðileggjandi áhrif á andlega, félagslega og líkamlega heilsu barna. Á sama tíma hafa tækninýjungar valdið vandamálum og Covid tíminn var sérstaklega erfiður í ofanálag, en síðustu 12 ár á Íslandi hið minnsta hefur líka verið rekin hörð hægri efnahagsstefna sem hefur stefnt samfélagslegum innviðum landsins í voða og aukið mjög á fátækt, sér í lagi barna.