Er þetta rétt hjá Bjarna, að flóttafólk sé að sliga kerfin?

Það er eðlilegt að fólk spyrji þessarar spurningar, þegar fjármála- og efnahagsmálaráðherra og formaður stærsta stjórnmálaflokksins fullyrðir á tröppum Bessastaða, þar sem forsetinn býr, að flóttafólk sé að sliga innviði og grunnkerfin okkar. En hvað er hæft í þessu hjá Bjarna Benediktssyni? Er biðlisti hjá heimilislæknum vegna fjölgunar hælisleitenda? Er leigumarkaðurinn að ofhitna vegna flóttafólks?

Í raun er enginn ágreiningur um að grunnkerfi samfélagsins séu að bresta. Þannig hefur það verið svo til alla þessa öld. Meira að segja fyrir Hrun voru komin fram meki þess að mennta- og heilbrigðiskerfin væru að veikjast, vegakerfið að láta undan vegna viðhaldsleysis og að alvarlegir brestir væru í húsnæðiskerfinu. Við Hrunið var dregið úr framlögum til innviða og grunnkerfa svo þau létu enn meira á sjá. Með fjölgun ferðamanna á eftirhrunsárunum kom veikleiki kerfanna síðan afgerandi í ljós, ekki bara vegna ferðamanna heldur fjölgunar innflytjenda sem hingað fluttust fyrst og fremst til að sinna ferðamönnunum.

Í dag er staðan sú að allir landsmenn vita að það hriktir í grunnkerfum samfélagsins. Starfsstéttirnar sem vinnan kerfanna hafa sagt okkur frá versnandi stöðu árum saman. Og við höfum beina reynslu af veikleikum kerfanna. Við erum föst á ofhitnuðum leigumarkaði eða þekkjum fólk sem er þar. Við höfum þurft að bíða klukkustundum saman á bráðadeildinni eða mánuðum saman eftir viðtali við heimilislækni. Við sjáum það í skólakerfinu að það er að sligast undan verkefnum. Alls staðar vantar fé og viðbúnað til að mæta auknum kröfum og fjölgun landsmanna.

Þetta er óumdeilt.

Landsmönnum fjölgaði um 3,1%

En er þetta flóttafólkinu um að kenna. Að hingað komi of mikið af hælisleitendum sem ekki fær stöðu flóttafólks, á ekki rétt á henni?

Reynum að átta okkur á vandanum með því að taka eitt ár, árið í fyrra, 2022.

Þá fjölgaði landsmönnum samkvæmt Hagstofunni um 11.790 manns. Það er fjölgun um 3,1% sem er gríðarleg fjölgun, fáheyrð í okkar heimshluta og á okkar tímum.

Af þessari fjölgun var 1.470 fjölgun íslenskra ríkisborgara, mest vegna fæðinga því fleiri íslenskir ríkisborgarar fluttu til útlanda í fyrra en sneru aftur heim. Þannig er það svo til öll ár. Erlendum ríkisborgurum fjölgaði hins vegar um 10.320 manns.

Af þessum erlendum ríkisborgurum voru 3.447 flóttamenn sem fengu landvistarleyfi. Þar af voru 2.315 frá Úkraínu en mest af hinum 1.132 voru frá Venesúela.

Vandinn með Venesúela

Venesúela er sérstakt mál á Íslandi. Fyrir nokkrum árum þegar bandaríska leyniþjónustan hafði uppi plön og vonir um að Juan Guaidó yrði viðurkenndur sem forseti Venesúela í stað Nicolás Maduro vildu íslensk stjórnvöld, undir forystu Sjálfstæðisflokksins, styðja þær tilraunir. Hluti af því var að veita flóttafólki frá Venesúela forgang um vernd. Það fékk þá sjálfkrafa fjögurra ára dvalarleyfi og stuðning stjórnvalda allan þann tíma. Ekkert nágrannalanda okkar tók þessa ákvörðun. Guðlaugur Þór Þórðarson, sem þá var utanríkisráðherra, og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, sem þá var dómsmálaráðherra, vildu hins vegar sýna bandarískum yfirvöldum tryggð, styðja tilraunir þeirra til valdaskipta í Venesúela með afgerandi hætti.

Síðan hafa komið til landsins hátt í þrjú þúsund manns frá Venesúela. Og fólk þaðan kemur miklu fremur hingað en til nágrannalanda okkar, skiljanlega þar sem hér er það skilgreint með allt aðra stöðu, sem forgangs-flóttafólk. Útlendingastofnun reyndi að vinda ofan af þessu með því að hætta að afgreiða mál fólks frá Venesúela sjálfkrafa en úrskurðarnefnd útlendingamála hafnaði því á þeim forsendum að stjórnvöldum væri óheimilt að afgreiða umsókn í dag með allt öðrum hætti en í gær án þess að eitthvað hefði breyst efnislega. Til að breyta afgreiðslunni þyrfti Útlendingastofnun að sanna að eitthvað hefði breyst. Og þá í Venesúela.

Eftir breytingar á útlendingalögum í vetur ætlar Útlendingastofnun að láta aftur á þetta. Mál flóttafólks frá Venesúela eru ekki afgreidd sjálfkrafa í dag, eins og lagt var upp með af Guðlaugi Þór og Áslaugu Örnu, heldur ætlar stofnunin að láta á það reyna að bakka út úr þeirri stöðu sem þeir ráðherrar komu okkur í.

Og það má heyra það á ráðherrum Sjálfstæðisflokksins þessa dagana að þeir vilja reyna að styðja þessa stefnubreytingu. Allt í einu eru ráðherrar Sjálfstæðisflokksins farnir að halda því fram að ástandið í Venesúela sé miklum mun betra en í öðrum löndum sem fólk er að flýja.

En ef flóttafólk frá Venesúela er vandamál á Íslandi er það vandi sem Sjálfstæðisflokkurinn bjó til og á að öllu leyti.

Hælisleitendur 8,7% af fjölgun landsmanna

En landsmönnum hefur fjölgað um 11.790 í fyrra og þar af voru 3.447 flóttamenn, mest frá Úkraínu.

En þetta segir ekki alla söguna. Hælisleitendur fá ekki kennitölu fyrr en þeir fá dvalarleyfi og eru því ekki hluti af talningu Hagstofunnar. Í fyrra sóttu 4.571 um hæli á Íslandi en 3.447 fengu dvalarleyfi. Eftir standa 1.124 hælisleitandi sem ekki fékk leyfi.

Og það er líklega hópurinn sem Bjarni er að benda á, hópurinn sem er þess valdandi að grunnkerfin okkar eru að bresta.

Staðan er þá sú að heildarfjölgun landsmanna, ef við teljum hælisleitendur með, var 12.914 í fyrra. Og hælisleitendur sem ekki fengu afgreitt dvalarleyfi 8,7% af þeirri fjölgun.

Hælisleitendur aðeins 4,8% af auknu álagi

En þetta segir heldur ekki alla söguna.

Í fyrra fjölgaði ferðamönnum mikið. Þeir auka ekki álagið á menntakerfið nema óbeint, en þeir auka svo sannarlega álagið á vegakerfið, heilbrigðiskerfið og hafa mikil hitunaráhrif á leigumarkaði, enda búa þeir margir í íbúðarhúsnæði sem annars væri til útleigu á almennum markaði.

Gistinætur í fyrra voru tæplega fjórum milljónum fleiri en árið áður. Það jafngildir því að á hverri nóttu, að meðaltali, hafi sofið hér í fyrra um 10.731 ferðamaður umfram það sem var á árinu 2021. Auðvitað var fjölgunin meiri yfir sumarið, en þetta er meðaltalið.

Ef við listum þetta saman væri gróft mat á fjölgun landsmanna og aukið álag á innviði og grunnkerfi samfélagsins svona fyrir árið 2022:

StaðaFjölgunHlutfall fjölgunar
Íslenskir ríkisborgarar1.4706,2%
Almennir innflytjendur6.87329,1%
Flóttafólk með dvalarleyfi3.44714,6%
Hælisleitendur1.1244,8%
Ferðamenn10.73145,4%

Þarna sést að álagið á innviði og grunnkerfi er mest vegna fjölgunar ferðamanna. Frá ferðafólkinu sjálfu kemur 45% af álaginu og 29% frá innflytjendum sem hingað koma að mestu til að sinna ferðafólki. Og hluti af því flóttafólki sem hefur fengið dvalar- og atvinnuleyfi sinnir líka ferðafólkinu og þar með ferðaþjónustunni.

Ef ætlunin sé að draga úr álagi á innviði og grunnkerfi væri því snjallara að fækka ferðamönnum en hælisleitendum. Einhver gæti þá bent á að ferðafólkið skilji eftir pening í samfélaginu, en þá má benda á að innflytjendur sem hingað koma á vinnualdri er margfalt verðmætari samfélaginu en ferðafólk sem staldrar hér við í viku eða tíu daga.

Vandinn sem Bjarni bendir á er aðeins 1,3% af heildinni

Auðvitað er snöggt aukið álag vandi, það reynir á öll kerfi sem þurfa að vaxa hratt. Tillaga Sjálfstæðisflokksins um að styrkja ekki kerfin til að standast þetta álag heldur að minnka álagið með því að fækka hælisleitendum með einhverjum aðferðum, er augljóslega ekki að fara bæta kerfin okkar neitt. Álagið mun sáralítið minnka, enda má rekja minnstan hluta af fjölgun flóttafólks til aukningar á umsóknum um hæli. Það er ef við drögum Úkraínu og Venesúela frá.

Í fyrra sótti hér um hæli 983 manns sem ekki voru frá Úkraínu eða Venesúela. Ef við berum það saman við fjöldann 2019, það er fyrir cóvid, þá er það fjölgun um 308 manns. Þetta er fjölgunin sem ráðherrar Sjálfstæðisflokksins vilja beina sjónum fólks að, þegar rætt er um veikleika innviða og grunnkerfa samfélagsins. Þetta er stjórnleysið í málefnum flóttafólks sem flokkurinn segir að sé ástæða þess að það hriktir í öllum innviðum. Þessi fjölgun jafngildir um 1,3% af aukna álaginu sem við drógum upp hér að ofan, aukið álag vegna fjölgunar landsmanna, ferðamanna og hælisleitenda.

Það er því augljóst að það er rangt sem Bjarni Benediktsson heldur fram, að það sé flóttafólk sem sé að sliga grunnkerfi samfélagsins og lausnin á veikleika þeirra sé að fækka hælisleitendum. Annað hvort veit Bjarni ekki um hvað hann er tala eða hann er vísvitandi að blekkja fólk. Þá líklega til að draga athyglina frá eigin skömm, en hann ber auðvitað manna helst ábyrgð á vanrækslu innviða og grunnkerfa samfélagsins.

Harðari ummæli ráðherra Sjálfstæðisflokksins voru til umræðu við Rauða borðinu. Þangað komu Nína Helgadóttir teymisstjóri hjá Rauða krossinum, Magnús Þór Jónsson formaður Kennarasambandsins og Guðmundur Hrafn Arngrímsson formaður Leigjendasamtakanna og ræddu stöðuna á innviðum og grunnkerfum samfélagsins.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí