22. júní síðastliðinn voru nærri 200 starfsmenn, verkalýðsforingjar, stjórnmálamenn og meðlimir annarra samtaka handtekin vegna borgaralegrar óhlýðni. Var þar um að ræða beina aðgerð, þar sem mótmælendur settust m.a. út á miðjar götur í Los Angeles. Fólkið var starfsfólk hótela í borginni sem voru að krefjast hærri launa, betri kjara ásamt betri almennum starfsskilyrðum.
Kjarasamningur starfsfólksins við Hyatt, IHG, Hilton og Marriott hótelin rennur út í dag og hefur starfsfólkið, sem eru meðlimir verkalýðsfélagsins Local 11 workers, þegar samþykkt að fara í verkfall – með 96% atkvæða.
Þetta verkfall myndi ná til 15.000 hótelstarfsfólks í Los Angeles. Sem gerir það að stærsta verkfalli hótelstarfsfólks í síðari tíma sögu Bandaríkjanna.
Talsmaður verkalýðsfélagsins bendir á að það starfsfólk sem heldur uppi ferðamanna- og þjónustuiðnaðinum í Los Angeles, einni ríkustu borg í heimi, eigi ekki efni á að búa sjálft í borginni. Á sama tíma bendir hann á að hótelin fengu styrk frá ríkinu uppá 15 milljarða dollara í Covid faraldrinum, ásamt því að þau séu öll í blússandi hagnaði nú.
Krafan er einfaldlega sú að starfsfólkið sem vinnur beinlínis við að halda öllu uppi, fái fyrir það laun og kjör sem gerir þeim kleift að lifa með reisn, samkvæmt talsmanni.
Hótelin sem um ræðir hafa a.m.k. enn ekki komið með neitt í nálægð við kröfur verkalýðsfélagsins. Það lítur því allt út fyrir að af þessu verkfalli verður – sem mun koma til með að lama ferðamannaiðnaðinn í Borg Englana.