Marén de Klerk, lögfræðingur sem eftirlýstur er af yfirvöldum í Namibíu fyrir þátt sinn í spillingarmálum Samherja, var látinn laus gegn tryggingu á föstudag af dómstól í Suður-Afríku. Eftir viku af yfirheyrslum komst dómstóllinn að því að de Klerk þyrfti ekki að sæta áframhaldandi fangelsisvist. Mun hann þó þurfa að mæta aftur fyrir rétt 25. september þegar framsalsmál hans verður tekið fyrir. Yfirvöld í Namibíu hafa farið fram á að hann verði framseldur þangað svo hann geti svarað fyrir þátt sinn í Samherjamálinu.
Í framburði sínum fyrir réttinum sagðist de Klerk vera saklaus, og að hann hafi ómeðvitað tekið þátt í spillingarmálinu. Fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Namibíu, Berhardt Esau, og fyrrverandi dómsmálaráðherra, Sacky Shangala, ásamt fleiri háttsettum ráðamönnum Namibíu, eru sakaðir um víðtæka spillingu, eitthvað sem de Klerk segist ekki hafa verið meðvitaður um. En hann, ásamt þeim, er ásakaður um að hafa staðið fyrir því að gríðarlegar fjárhæðir hafi verið færðar úr ríkissjóði yfir á einkareikninga. Lögfræðingurinn er sakaður um að hafa verið milligöngumaður (e. paymaster) í þessum málum.
Í framburði hans fyrir réttinum í Suður-Afríku – sem var lekið í fjölmiðla – sagðist hann óttast um líf sitt. Hann segist naumlega hafa komist undan fjórum mönnum sem ætluðu að ræna hann og myrða þegar hann var innlagður á sjúkrahús í Höfðaborg eftir að hafa fengið taugaáfall í janúar 2020. Hefur hann meðal annars breytt nafninu sínu í Michael, frekar en Marén, af þeim sökum.
Yfirmaður spillingarnefndar Namibíu, Erna van der Merwe, sem stýrir rannsókninni á þessu spillingarmáli, var viðstödd réttarhöldin og sagðist una dóminum. Á sama tíma sagðist hún treysta því að framsalsbeiðnin verði afgreidd með sómasamlegum hætti, svo de Klerk verði viðstaddur þegar þar að kemur hjá þarlendum dómstólum.
Málið verður tekið fyrir hjá namibískum dómstólum 7. október.
Samherjamálið
Samherji er sakaður um að hafa greitt embættismönnum og stjórnmálamönnum í Namibíu mörg hundruð milljónir króna í mútur í þeim tilgangi að komast yfir fiskveiðikvóta við strendur landsins.