Mótmælendur kröfðust réttlátra launa, sömu laun fyrir sömu störf

Verkalýðsmál 8. jún 2023

Þrjár kraftmiklar mæður, með börn sín á arminum efndu til mótmæla í morgun við skrifstofur Sambands íslenskra sveitarfélaga í Borgartúni og kröfðust þess að sambandið gengi þegar í stað frá kjarasamningi við BSRB. Þær sögðu að kröfurnar væru réttmætar og réttlátar fyrir launafólk sem sinnir mikilvægustu störfunum í sveitarfélögunum, og gera það á lægstu laununum. Þær kröfðust þess að sambandið greiddi þeim sömu laun fyrir sömu störf. Nokkur fjöldi fólks var saman komin í Borgartúni og krafðist þess sama. Þessar kraftmiklu konur sem stóðu fyrir mótmælunum heita Astrid Jóhanna Kristjánsdóttir, Erla Þórdís Traustadóttir og Esther María Ragnarsdóttir.

Nóg boðið

Spurðar hvers vegna þær standi fyrir þessum mótmælum, svörðu þær að þeim er nóg boðið í óbilgirni SÍS og hafi ákveðið að standa fyrir þessum mótmælum fyrir utan skrifstofur sambandsins sem af ótrúlegri framkomu neiti að greiða starfsfóli sínu sömu laun fyrir sömu störf. Þær sögðust vilja þakka öllum þeim sem sáu sér fært að koma á mótmælafundinn og styðja félagsfólk í BSRB í baráttunni fyrir sanngjörnum launum.

Astrid með dóttur sína á arminum við mótmælafundinn í morgun.

„Árið er 2023 og við erum vitni að því að sjá að brotið sé á réttindum fólks og því miður hefur fólk þurft að leggja niður sín störf, störf sem eru lykillinn okkar að jafnrétti hér á landi. Ef ekki væri fyrir leikskólastarfsmenn þá væri ég ekki með útivinnandi þar sem ég á 4 börn. Þetta á samt ekki bara við um leikskólastarfsmenn heldur eru þetta mörg önnur mikilvæg störf eins og starfsmenn sundlaug, íþróttahúsa, mötuneyta og fleira. Styðjum fólkið sem heldur samfélaginu okkar gangandi og knýjum samband íslenskra sveitafélaga til þess að semja um að launin séu leiðrétt,“ sagði Astrid Jóhanna.

Starfsmannavelta vegna launamisréttis

Erla Þórdís sagðist eiga tvær dætur, eina tveggja og hálfs árs og eins nýfædda fyrir þremur vikum. Sú eldri hafi verið svo heppin að hafa verið á leikskóla frá því að hún var eins árs.

Erla Þórdís ræðir við fréttamann RÚV á mótmælafundinum í morgun.

„Ég á líka eina þriggja vikna sem mun vonandi komast inná leikskola haustið 2024. Í störfum fólks á leikskólum er rútína yfir daginn þar sem þau njóta sín vel í rútinu og finna fyrir öryggi. Þar er þeim kennd félagsleg hæfni, læra að leika sér með vinum sínum o.s.frv. Þetta starfsfólk er ómissandi, í ómissandi störfum. Það er með gott og notalegt viðmót og hefur gaman af því að kenna börnum, sinnir daglegum athöfnum þeirra og dansa með þeim og syngja, skeina þeim, þvo hendur þeirra, gefa þeim að borða. Börn verða óörugg þegar það er mikil starfsmannavelta. Við vitum að starfsmannavelta orsakast að hluta til af óánægðu starfsfólki vegna launamisréttis og álagas í vinnu. Einnig ættu launin auðvitað að hækka í samræmi við verðbólgu. Semjið strax fyrir okkar framtíðar kynslóðir,“ sagði Erla Þórdís.

Sambandið vill ekki semja við þá launalægstu

Esther María sagði ekki hver sem er getur eða vill vinna á leikskóla. Hún sagðist þekkja til þess að þeir sem hafa hafið störf á leikskóla voru fljótir að hætta þar störfum álags og áreitis.

Esther Þórdís Traustadóttir ræðir við framkvæmdastjóra SÍS, Arnar Þór Sævarsson, og krefst þess að sambandið gangi frá kjarasamningi. 

„Við vitum það öll að það vantar starfsfólk á flest alla leikskóla hér á landi og þá er mikilvægt að halda í það starfsfólk sem við höfum á leikskólum barnanna okkar. Þetta starfsfólk velur sér þennan starfsvettvang og það velur sér að vinna með börnunum okkar. Ég meina hversu geggjað flott er þetta mikilvæga fólk. Ófaglærðir leikskólastarfsmenn ásamt leikskólakennurum hugsa um og sinna því mikilvægasta sem við eigum, börnin okkar! Samband íslenskra sveitafélaga segja NEI við afturvirka eingreiðslu upp á 128 þúsund krónur sem er um 0,3 prósent af heildar launagreiðslum sveitarfélaganna. Það myndi enginn samþykkja að fá lægri laun en vinnufélagi sinn fyrir sömu störf. Okkur er boðið þetta. Hvað er að þessu landi? Afhverju er ekki hægt að borga almennileg laun og sína fólkinu lágmarks virðingu? Nú þurfa sveitarfélögin og Samband íslenskra sveitafélaga að girða á sig brók og semja áður en þetta endar illa, því þetta bitnar á öllu samfélaginu,“ sagði Esther full eldmóðs og baráttuhugs.

Esther með börnum sínum Kára Þór og Maríu Rós.

SÍS hvetur til verkfallsbrota

Þá sagði Esther að sambandið hvetji starfsmenn Kí og BHM að ganga i störf þeirra félagsmanna BSRB sem eru í verkfalli. „Þau eru hvött til að gefa leyfi til að mæta í vinnu með börnin sín sem komast ekki i leikskólann sökum verkfalls. Þá hvetja þau til að veita leyfi til að aðstoðarleikskólastjórar leysi af inn á deildum. Færa börn á milli deilda og einnig sameina börn af fleiri deildum yfir á eina deild. Samband íslenskra sveitarfélaga eru tilbúin að láta draga sig fyrir félagsdóm. Þetta er fáránlegt!

Eyðum misrétti, leiðréttum launamismuninn, áfram jafnrétti !og, sömu laun fyrir sömustörf!“ hrópaði Esther yfir mannfjöldan.

Frétt af vef Sameykis.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí