Níu dregnir fyrir dóm í Grikklandi vegna sjóslyssins

Níu manns sem grunaðir eru um að eiga aðild að smyglinu á fólki sem leiddi til sjóslyssins undan ströndum Grikklands í síðustu viku verða dregnir fyrir dóm í grísku borginni Kalamata í dag. Eru þeir ásakaðir um að hafa stýrt bátnum sem sökk með skelfilegum afleiðingum.

Búið er að staðfesta dauða 78, á sama tíma og 104 var bjargað. Var fólkið mestmegnis frá Sýrlandi, Afganistan, Egyptalandi og Pakistan. Báturinn sökk um 80km undan ströndum grísku borgarinnar Pylos á miðvikudag í síðustu viku. Var báturinn á leið til Ítalíu frá Líbíu í Norður-Afríku.

Ekki er enn vitað nákvæmlega hversu margir hafi látist, en Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna áætlar að um 400-750 manns hafi verið um borð – þar á meðal tugir barna að minnsta kosti. Þar sem svo gott sem útilokað er nú að einhverjir fleiri finnist á lífi, þá er óhætt að áætla að nokkur hundruðir manna, bæði barna og fullorðinna, liggi nú á botni Miðjarðarhafsins, rétt undan ströndum Grikklands, í einhverju versta slysi sinnar tegundar nokkurn tímann. Einungis sjóslysið árið 2015, þegar bátur fórst undan ströndum Ródos og 800 flóttafólk lést er verra samkvæmt Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna.

Grísk stjórnvöld hafa mikið verið gagnrýnd fyrir að hafa ekki komið bátnum til aðstoðar áður en hann sökk – en skip frá landhelgisgæslu Grikklands hafði fylgt bátnum í nokkra klukkutíma áður en hann snerist svo skyndilega við. Einnig er landhelgisgæslan gagnrýnd fyrir að hafa ekki birt myndbandið af slysinu, en ætla mætti að slíkt myndband sé til. Talsmaður landhelgisgæslunnar segir að ekkert slíkt myndband sé til, þar sem ekki var kveikt á myndavélunum. En sumir efast um þetta, og er grunurinn sá að verið sé að halda aftur af birtingu þess, þar sem að það myndi ekki sýna landhelgisgæsluna í neitt sérstaklega fögru ljósi í aðdraganda slyssins.

Hafa verið mikil mótmæli í Grikklandi af þessum sökum. Grísk yfirvöld lýstu yfir þriggja daga þjóðarsorg í síðustu viku.

Mikil viðbrögð í Pakistan

Eftir að í ljós kom að mikið af fólkinu á bátnum hafi verið frá Pakistan, þá lýsti forsætisráðherra Pakistan, Shebaz Sharif, yfir þjóðarsorg. Á sama tíma lýsti hann yfir miklum aðgerðum til að stemma stigu við smygli á fólki og sagði að þeir sem stæðu í slíku myndu vera refsað harðlega. Það er ekki vitað nákvæmlega hversu margir Pakistanar voru um borð, en 12 var bjargað. Samkvæmt áætlunum gætu þeir hafa verið allt upp undir 200.

10 voru handteknir grunaðir um smygl á fólki í þessum nýju aðgerðum Pakistan í Kasmír í gær.

Viðbrögð Evrópu

Ráðmenn Evrópusambandsins hafa pressað á yfirvöld í Túnis að herða aðgerðir sínar til að stoppa báta sem fara þessa leið. En einungis á fyrstu þremur mánuðum þessa árs stoppuðu yfirvöld þar í landi 13.000 manns sem voru á þeirri leið, á samskonar bátum.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí