Politico greinir frá því að 63 þingmenn Evrópuþingsins hafa kallað eftir því að svipta Ungverjaland akvæðarétti innan Evrópuráðsins, eftir heimsóknir Viktor Orbán forsætisráðherra Ungverjalands til Moskvu og Peking þar sem hann átti fund með Vladímír Pútín og Xi Jinping, og heimsókn hans til Bandaríkjanna þar sem hann átti fund með Donald Trump. En þar á undan hafði Orban heimsótt Kænugarð og átt fund með Volodomir Zelenský.
Ungverjaland tók við formennsku í Evrópuráðinu þann 1. júlí (en aðildarríki ESB skiptast á að fara með formennsku í ráðinu í sex mánuði).
Síðan Ungverjaland tók við formennsku í ráðinu hefur Orbán farið í „friðarleiðangur“ til Kænugarðs, Moskvu, Peking, og nú síðast á fund Trump í Mar-a-Lago í Flórída (í framhaldi af því að hafa sótt NATO-fundinn í Washington 9.-11. júlí, en Ungverjaland er einnig aðildarríki NATO). Fundur Orbán með Trump er mikilvægur, vegna þess að talið er ansi líklegt að Trump muni vinna forsetakosningarnar í nóvember (og taki þar með við forsetaembætti Bandaríkjanna í janúar 2025), m.a. vegna nýlegs morðtilræðis gegn honum sem hefur vakið mikla athygli, og einnig vegna lakrar frammistöðu Biden í sjónvarpskappræðunum.
Orbán veitti viðtal á ensku um þennan friðarleiðangur eftir fundinn við Pútín þann 5. júlí, sem hægt er að horfa á hér:
63 þingmenn Evrópuþingsins sendu bréf til Ursula von der Leyen (forseta framkvæmdastjórnar ESB), Charles Michel (forseta leiðtogaráðs ESB), og Roberta Metsola (forseta Evrópuþingsins), þar sem kallað er eftir því að Ungverjaland verði svipt atkvæðarétti innan Evrópuráðsins.
Politico birti afrit af bréfinu. Í bréfinu segir meðal annars:
Við undirritaðir þingmenn á Evrópuþinginu köllum eftir því að þið sviptið Ungverjalandi atkvæðarétti í Evrópuráðinu samkvæmt 7. gr. sáttmálans um Evrópusambandið… Orbán hefur þegar valdið verulegu tjóni með því að misnota formennskuna í Evrópuráðinu.
Bréfið er ein nýjasta tilraunin til að halda aftur af formennsku Ungverjalands í Evrópuráðinu og refsa Orbán fyrir hans friðarleiðangur.
Nýlega tilkynnti talsmaður forseta framkvæmdastjórnar ESB (Ursula von der Leyen) það einnig að æðstu embættismenn ESB ætli að sniðganga fundi sem Ungverjaland heldur í Evrópuráðinu.
Þá hefur Josep Borrell, utanríkismálastjóri ESB, einnig tilkynnt að utanríkisráðherrar ESB-ríkjanna ætli að sniðganga utanríkisráðherrafund sem Ungverjaland mun halda í Búdapest þann 28. til 29. ágúst. Þessi fundur er mikilvægur hluti af formennsku Ungverjalands í Evrópuráðinu. Að utanríkisráðherrar ESB sniðgangi slíkan fund er fordæmalaust skref í sögu sambandsins.
Nýjasta fréttin er sú, að núna á miðvikudag, samþykkti Evrópuþingið ályktun sem fordæmir heimsókn Orbán til Rússlands. Í ályktuninni segir meðal annars að þetta hafi verið „skýlaust brot á sáttmálum ESB og sameiginlegri utanríkisstefnu sambandsins“.
495 Evrópuþingmenn greiddu atkvæði með ályktuninni en 137 á móti.
ESB einangrað á alþjóðavettvangi
Grikkirnir á YouTube-rásinni Duran (sem eru mjög skeptískir á ESB) koma með greinargóða úttekt á málinu:
Þeir segja að Úkraínustríðið sé að rústa Evrópu efnahagslega og pólitískt séð. Evrópa hefur hag af því að binda enda á stríðið, en ráðamenn í ESB geta ekki gert sér það í hugarlund að semja við Pútín, hvað þá að Orbán hafi eitthvað með slíkar samningaviðræður að gera, en þeir hata hann næstum eins mikið og þeir hata Pútín, og álíka mikið og Trump. Þess vegna vilja búrókratarnir í Brussel frekar tapa stríðinu í Úkraínu heldur en að semja um frið. Duran segja jafnframt að þessir ráðamenn í ESB hafi brennt allar brýr að baki sér og hafi einangrað sig verulega diplómatískt á alþjóðavettvangi. Öll ríki utan Vesturlanda: hnattræna suðrið, Afríka, Suður-Ameríka, Miðausturlönd og Asía, vilja semja um frið í Úkraínu. Það er aðeins stjórnmálaelítan á Vesturlöndum sem vill halda stríðinu áfram og neitar að semja.
Aftur á móti eru núna raddir að stíga fram sem tala fyrir friði í Úkraínu, eins og Trump í Bandaríkjunum, Orbán í Ungverjalandi, og Robert Fico, forsætisráðherra Slóvakíu. Þessum málstað er farinn að vaxa fiskur um hrygg, sem gerir stjórnmálaelítuna í ESB brjálaða.
Duran fjalla reyndar ekki um það í þættinum, en Bandaríkin, ESB og aðildarríki sambandsins, hafa einnig verið að einangra sig verulega frá restinni af heiminum með skilyrðislausum stuðningi sínum við apartheid-stjórnina í Ísrael á meðan þjóðarmorðið á Gasa heldur áfram í beinni útsendingu.
Er stjórnmálaelítan í ESB að missa sinn trúverðugleika?