Leiðtogaráð Evrópusambandsins og Evrópuþingið hafa náð samkomulagi um fyrstu lagasetningu Evrópusambandsins sem snýr að ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi. Í lagafrumvarpinu eru settar fram skilgreiningar á ofbeldisglæpum gegn konum, börnum og fólki í viðkvæmri stöðu. Kynfæralimlestingar og þvinguð hjónabönd yrðu refsiverð í öllum ESB aðildarríkjunum með lagasetningunni.
Samkomulagi um lagafrumvarpið var náð í gær undir forystu Belga í leiðtogaráðinu. Ofbeldi gegn konum og stúlkum eru hvað algengustu og kerfisbundnustu mannréttindabrot sem framin eru í heiminum. Í frumvarpinu eru settar fram skilgreiningar á þessu ofbeldi og það gert refsivert, jafnframt sem tilgreind eru viðurlög. Þá eru réttindi þolenda skilgreind og kveðið á um vernd og aðstoð við þá.
„Fyrir fjölda evrópskra kvenna er kynferðislegt ofbeldi, heimilisofbeldi, áreitni eða rafræn kynferðisbrot dagleg ógn. Ennfremur greiða konur í allt of miklu mæli fyrir sambandsslit með lífi sínu. Jafnvel þvinguð hjónabönd og kynfæralimlestingar hafa ekki að fullu verið gerð útlæg úr samfélaginu. Þessu verður að linna,“ sagði Paul Van Tigchelt, aðstoðarforsætisráðherra Belgíu, en Belgía fer nú, sem fyrr segir, með forsæti í leiðtogaráðinu.
Með frumvarpinu er verið að stíga mikilvæg skref í þá átt að standa gegn þessum glæpum, með forvörnum og refsingum. Með samþykkt frumvarpsins myndu kynfæralimlestingar, þvinguð hjónabönd, dreifing nektarmynda án samþykkis, rafræn áreitni og rafrænn hatursáróður verða refsiverð í öllum Evrópusambandsríkjunum. Þá inniheldur frumvarpið einnig ákvæði um endurtekið ofbeldi gegn konum, sem og ofbeldi gegn fólki í viðkvæmri stöðu og börnum.
Sömuleiðis eru í lögunum ákvæði sem eru sett fram til að auðvelda þolendum ofbeldis að tilkynna ofbeldisbrot, ákvæði sem eiga að tryggja réttláta málsmeðferð hjá löggæsluyfirvöldum og ákvæði sem tryggja að mál verði tekin fyrir af dómstólum. Þá verður ESB ríkjunum skylt að veita fullnægjandi, sérhæfða aðstoð og vernd til handa þolendum. Meðal annars verði hægt að tilkynna um kynbundið ofbeldi eða heimilsofbeldi í á einfaldan og aðgengilegan hátt, þar á meðal yfir netið.
Sérstaklega er einnig fjallað um ofbeldi gegn börnum í frumvarpinu. Þar er tilgreint að ESB ríki verði að tryggja að börnum sé veitt sérfræðiaðstoð hafi þau orðið fyrir, eða orðið vitni að, ofbeldi.
Þá ber yfirvöldum að meta þá hættu sem þolendum stafar af ofbeldismönnum þegar tilkynnt er um kynferðisofbeldi eða heimilisofbeldi. Skylt verður að veita þolendum nægilega vernd, sem gæti falist í nálgunarbanni eða öðrum aðgerðum.
Skylt verður að tryggja að til staðar sé aðstoð á borð við miðstöðvar fyrir þolendur kynferðisofbeldis þar sem hægt er að sækja stuðning og upplýsingar, aðstoð við að tilkynna brot til lögreglu og aðstoð við að finna húsaskjól og heilbrigðisþjónustu. Þá verður aðildarríkjunum sömuleiðis gert að setja upp neyðarlínu fyrir þolendur sem opin er allan sólarhringin, að kostnaðarlausu. Þá skuli efla forvarnir og hefja átak sem miði að því að koma í veg fyrir ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi.
Frumvarpið býður nú samþykkis fulltrúa aðildarríkja ESB. Að því loknum þarf leiðtogaráðið að að fullgilda lögin, sem og Evrópuþingið.