Mannréttindasamtök gagnrýna milljarða stuðning ESB við Egyptaland

Evrópusambandið hefur samþykkt að veita Egyptalandi fjárhagsaðstoð að jafnvirði 1.100 milljarða íslenskra króna og að samstarf sambandsins og Egypta verði eflt. Samkomulag þessa efnis er hluti af tilraunum til að stemma stigu við straumi flóttafólks til Evrópu. Samkomulagið var undirritað síðastliðinn sunnudag. Mannréttindasamtök gagnrýna samkomulagið harðlega. 

Fjárhagsaðstoðin inniber hvoru tveggja styrki og lán á næstu þremur árum. Er samkomulagið sagt gert ekki síst til að styrkja samskipti Evrópusambandsins við Egyptaland, sem er fjölmennast arabaríkjanna. 

Stærstur hluti fjárstuðningsins er í formi ívilnunarlána, hluti er í formi fjárfestinga og hluti í formi styrkja, þar af styrkur að virði um 30 milljarða króna til að takast á við flóttamannavanda. 

Efnahagsleg staða Egytpalands hefur farið mjög versnandi síðustu misseri, verðbólga nálgast methæðir og gjaldeyrisforði landsins er takmarkaður. Það hefur haft í för með sér að fjöldi fólks hefur farið úr landi. Leiðtogar Evrópuríkja og Evrópusambandið eru hins vegar áfram um að hefta fólksflótta frá landinu og öðrum Afríkuríkjum, og óttast því að aukinn óstöðugleiki í Egyptalandi sé vatn á myllur enn frekari straums flóttafólks til Evrópu. 

Síðustu mánuði hefur orðið mikil fjölgun á komum flóttafólks til grísku eyjanna Krítar og Gavdos, og eru þeir flestir komnir frá Egyptalandi, Bangladesh og Pakistan. 

Mannréttindasamtök hafa gagnrýnt Vesturlönd harðlega fyrir stuðning þeirra við Abdel Fattah el-Sisi Egyptalandsforseti, sem nú hefur setið við völd í landinu í áratug eftir að hafa steypt Mohamed Morsi, fyrsta lýðræðislega kjörna leiðtoga Egyptalands, af stóli. Ráðist hefur verið að andstæðingum stjórnvalda og ríkisvald og her hafa hert tök sín á flestum sviðum samfélagsins, þar á meðal á efnahagslífinu, með afar neikvæðum afleiðingum. 

Evrópusambandið heldur því fram að samstarf þess við Egypta sé til þess fallið að ýta undir lýðræði og frelsi. Það hafa mannréttindasamtök dregið stórlega í efa. Human Rights Watch lýsa samkomulaginu sem svo að það sé nákvæmlega eins og fyrri samkomulög sem sambandið hefur gert við Túnis og Máritaníu, sem sagt stórkostlega gallað og hafa það eitt að markmiði að koma í veg fyrir komu flóttafólks á sama tíma og ofbeldi og kúgun er látin óátalin. 

Amnesty International hefur þá hvatt leiðtoga Evrópuríkja til að gerast ekki samsekir í manréttindabrotum þeim sem eiga sér stað í Egyptalandi. 

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí