Á næstunni kemur á markaðinn nýtt tímarit um sögu og samfélagsmál. Það nefnist
DEMOS, sem þýðir Lýður. Ekki þó hvaða lýður sem er, heldur sá lýður sem með
virkni sinni, samstöðu og baráttukrafti skapar forsendurnar fyrir lýðræði.
Fyrsta tölublað tímaritsins er yfir hundrað síður í stóru broti, myndskreytt og að hluta
í lit. Það er hannað af Stefáni Hjálmtý Stefánssyni. William Morris, hinn eini og sanni
Íslandsvinur og sósíalisti, prýðir forsíðu á teikningu Péturs Baldvinssonar, og inni í
blaðinu er löng og efnismikil grein um Morris eftir Andrés Eiríksson, líf hans og starf.
Greinin er sú fyrsta í greinarflokki Andrésar um Morris. Einnig er grein eftir Morris
sjálfan í þýðingu Andrésar.
Bandaríska fræðikonan Nancy Fraser gaf góðfúslegt leyfi til að grein hennar um
þjóðfélagslegar forsendur Trumpismans í Bandaríkjunum yrði þýdd á íslensku, og
birtist hún í 1. tbl. DEMOS í þýðingu Árna Daníels Júlíussonar. Þá er grein eftir
Þórarinn Hjartarson um heimsvaldastefnu nútímans, sem er þörf lesning í ljósi
ástands heimsmála og styrjaldar í Úkraínu.
Einar Már Guðmundsson rithöfundur gaf góðfúslegt leyfi sitt til að birta kafla úr
skáldsögu hans Skáldleg afbrotafræði, og ljóð Þorsteins Erlingssonar, Brautin, er birt
í tilefni af upphafi útgáfunnar.
Axel Kristinsson skrifar um ástæður fyrir stéttaskiptingu, og Árni Daníel Júlíusson um
Evrópubyltinguna 1917-1923, en lok hennar eiga 100 ára afmæli í ár. Þá á Albert
Einstein grein í blaðinu í þýðinu Andrésar Eiríkssonar.
Mánudaginn 5. júni verður haldið útgáfuhóf vegna upphafs á útgáfu DEMOS, kl. 17 í Bókabúð Máls og menningar á Laugaveginum. Sumar af greinunum úr fyrsta tölublaði eru komnar á vef tímaritsins, sjá hér: Demos.is
Myndin er af forsíðu og baksíðu fyrsta tölublaðs.