Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR og gagnrýnandi spillingar, hefur ekkert látið frá sér um skýrslu fjármálaeftirlitsins um Íslandsbankasöluna, mörgum til nokkurrar furðu. Daginn sem margir viðruðu hneykslun sína á fúski og spillingu Íslandsbanka kynnti Ragnar Þór hins vegar lagið Í rokinu sem hann tók upp ásamt félögum sínum í hljómsveitinni Fjöll, þar sem Ragnar Þór lemur húðirnar.
„Fyrir sléttum 30 árum gerði ég mitt síðasta tónlistarmyndband, að ég hélt, með hljómsveitinni Los sem ég spilaði með á þeim tíma. Stuttu síðar lagði ég kjuðana á hilluna og reiknaði ekki með að taka þá fram aftur af einhverri alvöru,“ skrifar Ragnar Þór á Facebook.
„Sem betur fer átti ég alltaf græjurnar, ég var ekki tilbúinn að skera á þann naflastreng, veit ekki af hverju, en líklega hefur tónlistin alltaf blundað þannig í mér að ég var ekki tilbúinn að láta þær frá mér og rjúfa þessa tengingu alveg.
Ekki vegna fjarlægra drauma um frægð og frama heldur ástríðu minnar á tónlist og hvernig tónlistin hefur fylgt mér allt mitt líf, þó lengst af síðustu áratugi sem áheyrandi og áhugamaður.
Tónlistin hefur gefið mér mikið og hjálpað mér við að komast í gegnum erfiða tíma. Sem barn fékk ég þá útrás á trommunum, útrás sem ég nauðsynlega þurfti sem barn, og eirð og þolinmæði við að glamra á gítarinn og hljómborðið.
Tónlistin og hljóðfærin hafa þannig verið mín hugleiðsla og hjálp þegar á þarf að halda og einnig ómæld gleði og lífsins gjöf þegar mér líður vel.
En það hvarflaði aldrei að mér að vera í þeim sporum ný fimmtugur að gefa út tónlistarmyndband með yndislegum vinum mínum í hljómsveitinni Fjöll. Þetta ævintýri okkar er draumi líkast fyrir mig, vinskapurinn og samheldnin og hversu vel við náum saman í tónlistinni. Það eru svo mikil forréttindi að fá að vera hluti af þessu verkefni og þessum hópi. Þeir eru svo ótrúlega frjóir og klárir þessir strákar.
Lífið er til þess að njóta. Ég man eftir öllu strögglinu þegar ég spilaði fótbolta með yngri flokkum Leiknis í gamla daga, strögglið að komast í lið og strögglið við að stunda keppnisíþrótt.
Mörgum árum seinna stofnuðum við félagarnir utandeildarlið og spiluðum fótbolta þar í þónokkur ár. Ég hafði aldrei notið þess virkilega að spila fótbolta fyrr en þá. Engin pressa, bara ánægja. Það má líkja þessu saman að einhverju leiti. Við erum komnir af allra léttasta skeiðinu og við fáum líklega ekki mikla opinbera athygli, en maður lifandi hvað þetta er gaman. Lífið er til að njóta, dreyma og framkvæma. Þarf ekki að vera stórt og þarf ekki alltaf að snúast um veraldlega hluti. Hér er nýjasta lagið okkar og myndband. Það er eins og íslenska sumarið, Í Rokinu. Svo eru fleiri lög með okkur á streymisveitu Spotify undir Fjöll og meira á leiðinni.“