Hafrannsóknarstofnun ráðleggur svo til óbreyttan þorskkvóta á næsta fiskveiðiári, 211 þúsund tonn. Þetta er aðeins 1 prósent aukning frá yfirstandandi ári. þessi ráðlegging hefur komið sjómönnum mjög á óvart, enda mikill afli víðast og fiskurinn stór. Jón Kristjánsson fiskifræðingur kom að Rauða borðinu og lagði mat á veiðiráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar.
Jón hefur gagnrýnt veiðiráðgjöfina áratugum saman og haldið því fram að Íslendingar hafi veitt miklu minna en mögulegt hefði verið. Og að tapið af því skipti þúsund milljarða króna yfir langan tíma. Hafrannsóknarstofnun hefur farið sömu leið og og víða hefur verið farin erlendis með sama árangri, afli hafi minnkað enn meira og sums staðar hafa fiskstofnar hrunið.
Og það gerist ekki vegna þess að of mikið sé veitt, heldur of lítið. Þegar fiskur horast og minnkar er ráðið ekki að draga úr veiðinni heldur að auka hana. Það sem ræður viðfangi fiskistofna er fæðið í sjónum. Veiðar hafi sáralítil áhrif í samanburði við fæðuframboðið. Og ef það skortir fæðu er launsin að veiða svo færri fiskar séu um hituna. Ef dregið er úr veiðum á fiskistofnum sem standa veikt getur stofninn veslast upp. Þetta kann að hljóma sem þversögn, að hægt sé að veikja stofna með því að vernda þá. En þannig er það nú samt.
Þetta hafa verið skilaboð Jóns áratugum saman. Veiðið meira, ekki minna.
En það er ekki hlustað á hann né aðra fiskifræðinga sem hafa haldið þessu fram. Veiðiráðgjöf Hafrannsóknarstofnun rennur núorðið í gegn án umræðu. Og jafnvel þótt þar sé lagt til miklu minni afli en auðvelt væri að sækja samkvæmt Jóni. Þetta er stærsta hagsmunamál þjóðarinnar sem fær minnsta umræðu. Og þá gagnrýnisminnstu. Fréttir af veiðiráðgjöfinni eru fluttar eins og væru þær um óvefengjanleg náttúrulögmál.
Hvernig stendur á því? Jón nefnir tvo þætti. Þegar síldin hvarf var það almennt talið að ástæðan væri ofveiði. Enginn fiskifræðingur vill leggja til veiðar sem geta valdið slíku áfalli. Síðan þá hafa fiskifræðingar verið varkárir, frekar viljað leggja til litla og æ minni veiði, og þar með hrörnun stofnanna, en að verða hugsanlega valdir að algjöri hruni. Jón nefnir líka að með aukinni reiknigetu tölva hafi áherslur fiskifræðinnar færst frá líffræðilegri þekkingu yfir í líkanagerð, byggðri á reiknigetu tölvanna. Menn hafi því skipt út gervigreind fyrir raunverulega þekkingu.
Hlusta má á og sjá viðtalið við Jón í spilaranum hér að ofan.