Sjálfstæðiskonan Sigríður Andersen virðist móðguð yfir því að ekki hafi verið talað um andlát Silvio Berlusconi af nægilegri virðingu á Rás 1 í gær. Sigríður var dómsmálaráðherra en sagði af sér embætti árið 2019 eftir að Mannréttindadómstóll Evrópu komst að þeirri niðurstöðu að dómarar sem hún hafði skipað hefðu ekki verið löglega skipaðir. Síðan þá hefur Sigríður átt erfitt uppdráttar í stjórnmálum en hún kom illa út úr prófkjöri Sjálfstæðismanna í aðdraganda síðustu kosninga.
Berlusconi, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu, lést í gær 86 ára að aldri. Á Twitter skrifar Sigríður og virðist ekki alls kosta sátt: „Þulur á Rás1 kl. 15:46: „Í morgun fengum við fréttir af andláti Silvio Berlusconi en kjósum frekar að minnast finnska tónskáldsins Kaija Saariaho sem lést 2. júní sl. Við heyrum kórverk eftir hana La nuit d’adieu…“
Sumir á Twitter virðast ekki átta sig á því um hvað gagnrýni Sigríðar snýst. Líkt og einn maður sem skrifar: „Ef þetta er gagnrýni á Ríkisútvarpið, þá voru kvöldfréttir RÚV með marga mínúta umfjöllun um Berlusconi. Viðtal um andlát hans við tvo af helstu aðdáendum hans, Putin og Davíð Oddsson. Þetta er ágætis tími fyrir mann sem var á mörkum þess að vera fasisti.“