Leiðtogi vinstri flokksins Syriza í Grikklandi, og fyrrum forsætisráðherra, Alexis Tsipras hefur sagt af sér sem formaður flokksins. Kemur þessi afsögn í kjölfar stórtaps flokksins í kosningum fyrir nokkrum dögum síðan.
Sigurvegari kosninganna, og forsætisráðherra Grikklands næstu fjögur árin, var Kyriakos Mitsotakis, leiðtogi hins íhaldssama hægriflokks New Democracy. Fékk flokkur hans um 40% atkvæða, á meðan að Syriza fékk einungis rétt tæplega 18%.
Tsipras segir í tilkynningu að tími sé kominn til að setja nýja hringrás í gang, og markar þetta tap í síðustu kosningum upphafið að þeirri nýju hringrás.
Ris og fall Syriza
Tsipras leiddi Syriza til stórsigurs í kosningunum árið 2015, á hátindi efnahagskrísu Grikklands. Var hann einn af yngstu forsætisráðherrum sem Grikkland hefur átt, og komst hann til valda vegna andstöðu flokks hans við sveltistefnuna í kjölfar efnahagshrunsins 2008 sem lék Grikkland grátt.
Eftir mikil átök, neyddist ríkisstjórn hans til að koma á gjaldeyrishöftum. Eftir mikla pressu frá Evrópusambandinu boðaði hann til þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem hann hvatti Grikki til að hafna þeirri sveltistefnu sem Evrópusambandið var að reyna að neyða uppá þjóðina. Vann hann þær kosningar, en Grikkir kusu með yfirgnæfandi meirihluta á móti því að hlýða Evrópusambandinu. Honum snerist hinsvegar hugur í kjölfarið og ákvað að innleiða þær harkalegu stefnur sem Evrópusambandið heimtaði.
Hann boðaði svo til skyndikosninga í september árið 2015, sem flokkur hans vann. En í kosningunum fjórum árum seinna tapaði hann fyrir flokki Mitsotakis, núverandi forsætisráðherra.