Biðlistar eftir félagslegu húsnæði í Reykjavík hafa lengst um 30% á síðustu tveimur árum. Eitt af kosningaloforðum Samfylkingarinnar var „að halda áfram á sömu braut“ þegar kæmi að styttingu biðlista. Í júlímánuði árið 2021 voru 817 manns á biðlista. Í sama mánuði þessa árs er talan komin upp í 1076.
Á tölfræðivef velferðarsviðs Reykjavíkurborgar er hægt að renna yfir gögn yfir biðlista eftir félagslegu húsnæði, skipt eftir árum og mánuðum. Ef biðlistar frá því í júlí árið 2021 eru skoðaðir, má sjá að í heildina voru 817 manns á biðlista. Inni í þeim tölum eru þau sem bíða eftir almennu félagslegu húsnæði, húsnæði fyrir fatlað fólk, þjónustuíbúðum aldraðra og húsnæði fyrir heimilislausa.
Biðlistar í júlí árið 2021 skiptust þannig niður að 480 manns biðu eftir félagslegu húsnæði, 132 eftir húsnæði fyrir fatlað fólk, 138 eftir þjónustuíbúð aldraðra og 67 eftir húsnæði fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Samtals 817 manns.
Nú tveimur árum síðar er staðan þannig að 783 manns bíða eftir félagslegu húsnæði, 134 eftir húsnæði fyrir fatlað fólk, 93 eftir þjónustuíbúð aldraðra og 66 eftir húsnæði fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Samtals 1076 manns.
Árið 2021 hafði meirihlutanum í Reykjavík tekist að stytta biðlista eftir félagslegu húsnæði töluvert. Með tilkomu Framsóknarflokksins í meirihlutasamstarfið virðist algjör kúvending hafa átt sér stað. Engin áhersla er lögð á að stytta biðlista og þeir látnir lengjast afskiptalaust. Meirihlutinn í Reykjavíkurborg hefur því færst enn lengra til hægri en áður.