Brynjar Níelsson, fyrrum þingmaður og aðstoðarmaður dómsmálaráðherra segi í viðtali við Moggann að hann óttist að Sjálfstæðisflokkurinn geti klofnað. „Ég finn mikla undiröldu,“ segir Brynjar. „Mönnum finnst framámenn flokksins ekki tala nógu mikið fyrir stefnunni og stefnumálum sínum. Við erum í ríkisstjórnarsamstarfi og það kallar á málamiðlanir. Allir skilja það. Það breytir ekki því að forystan þarft að tala fyrir stefnumálum flokksins og berjast fyrir þeim. Mönnum finnst ekki að það sé gert og fara að hugsa: Hvað varð um gamla, góða flokkinn minn sem var ráðandi og kom þessari þjóð á lappirnar með hugmyndafræði sinni undir stjórn gamla Óla Thors og gamla Bjarna Ben.“
Þetta kann að hljóma eins og fortíðarþrá segir Brynjar, en að svo sé ekki. „Ef maður les ritgerðir Bjarna Ben eldri þá eiga þær jafn vel við í dag og fyrir hálfri öld.“
Sjálfstæðisflokkurinn hefur klofnað oft frá Hruni, sem jafnframt er formannstíð Bjarna Benediktssonar. Evrópusinnar gengu út og stofnuðu Viðeisn, meðal annars fyrrum formaður og varaformaður flokksins. Flokkur heimilanna var stofnaður af Sjálfstæðisflokksmönnum auk Ingu Sæland og bauð fram Sjálfstæðisflokksmenn í öllum kjördæmum nema hennar. Miðflokkurinn bauð líka fram Sjálfstæðisflokksmenn, ekkert síður en menn úr Framsókn. Og Miðflokkurinn hefur jafnvel frekar sótt fylgi til fyrrum kjósenda Sjálfstæðisflokksins en Framsóknar.
Er þá nauðsynlegt að formannsskipti verði í flokknum? spyr Kolbrún Bergþórsdóttir blaðakona.
„Ég veit það ekki. Formaðurinn okkar hefur ótrúlega marga góða kosti og er mjög öflugur. Mér finnst hann algjör yfirburðamaður sem er fljótur að setja sig inn í mál. Maður getur svo auðvitað spurt hvað sé eðlilegt að menn séu í forystu lengi fyrir flokk eins og Sjálfstæðisflokkinn. Sálfræðilega getur verið sterkt að skipta um forystu á ákveðnu tímabili. Þá þarf að finna einhvern mjög góðan.“
Ertu með einhvern í huga? spyr Kolbrún.
„Ég er með marga í huga en þeir eru ekki allir mjög áberandi í flokknum í dag. Ég held að það væri ágætt að taka einhvern sem er ekki í framvarðasveitinni þótt þar séu menn sem vissulega gætu tekið að sér formennsku.“
Aðspurður um hvort ríkisstjórnin hald út kjörtímabilið segir Brynjar að þá þarf eitthvað að breytast. „Þú lest skrif þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins, þú lest hvað matvælaráðherra hefur sagt og þingmenn VG hafa sagt og skrifað um Sjálfstæðisflokkinn. Það þarf eitthvað mikið að breytast.“
„Ég horfi á minn flokk og spyr: Af hverju ætti fólk að kjósa ykkur eftir tvö ár ef þetta heldur svona áfram? Menn eru ekki að tala fyrir ákveðinni stefnu með neinum þunga, nema með örfáum undantekningum. Ég segi öllum að þeir þurfi að lesa Óla Björn. Þar er verið að tala inn í hjartað á Sjálfstæðismanninum. Inn í hjartað á mér. Lesið Óla Björn! Svo höfum við misst mjög öfluga þingmenn síðustu misseri, sem er ekki gott fyrir flokkinn. Vil ég sérstaklega nefna Harald Benediktsson og Sigríði Andersen,“ segir Brynjar í viðtalinu við Mogga.
Vilhjálmur Árnasson þingmaður Sjálfstæðisflokksins var á Brynjarslínunni í viðtali við Útvarp Sögu í gær „Ég held að við verðum að setja fram skýrt hvaða mörk við setjum á okkar hugsjónir og okkar mál. Ef við ætlum að standa undir þessum grunninnviðum og draga úr verðbólgu með verðmætasköpun og aðhaldi í ríkisrekstri þurfum við að sjá hverjir eru tilbúnir í það með okkur. Ef Vinstri grænir eru tilbúnir í það og ef það verður breyting á starfsháttum þeirra þá er ekki ástæða til breytinga á ríkisstjórninni. Ef þeir eru ekki tilbúnir í það, þá erum við í allt annari stöðu og verðum að fara að horfa yfir sviðið. Þarf þá kosningar eða einhver borgaraleg öfl með okkur eins og Brynjar Níelsson nefndi í sínum pistli?“ sagði Vilhjálmur.