Ekkert neikvætt við það sem er gamaldags

Sverrir Norland skrifar áhugaverðan pistil á Facebook þar sem hann gagnrýnir notkun hugtaksins gamaldags í neikvæðari merkingu.

Við skulum bara leyfa pistli Sverris að tala fyrir sig sjálfan:

„Örstutt innlegg í lestir vs. sjálfkeyrandi bílar-umræðuna:

Ég hreinlega skil það ekki þegar orðið „gamaldags“ er notað í neikvæðri merkingu. Nokkur dæmi um það sem er „gamaldags“:

Brauð, vatn, kaffi, vín, te, leikhús, ástin, vináttan, lestir, göngutúrar, að synda í sjónum, útilegur, tónlist, kynlíf, íþróttir, hlátrasköll, dans, reiðhjól, hestamennska, akústísk hljóðfæri, samvera, annað fólk …

(Er þetta ekki listi yfir margt það sem gerir okkur hamingjusöm?)

Auðvitað er miklu hagkvæmara fyrir gróðamiðað fólk að vilja selja okkur þá hugmynd að við eigum öll að sitja inni í bíl sem stýrt er af „nútímalegri“ tækni sem þau eiga – en það er ekki endilega besta lausnin fyrir þá sem ekki eiga hlutabréf í stórum tæknifyrirtækjum og vilja ekki láta njósna um sig hverja vökustund.

Alveg eins og það er ekki endilega besta lausnin fyrir mannkyn í heild að leyfa örfáum tæknifyrirtækjum að stela hugverkum milljóna án þess að greiða höfundunum krónu, mata algóritma á þýfinu og kalla útkomuna „gervigreind“ frekar en „alræði hinna fáu“ eða eitthvað í þeim dúr.

Svo er annað: Ætlum við virkilega að halda áfram að búa í stífluðum bílaborgum næstu hundrað árin? (Auðvitað er Ísland spes dæmi en Reykjavík er samt orðin nokkuð burðug borg.) Það skiptir ekki máli hvort tölva eða manneskja situr við stýrið ef þessir álkassar eru alls staðar.

Síðustu hundrað ár hafa orðið sáralitlar framfarir í sögu mannkyns ef frá eru talin læknavísindin (geta okkar til að lækna okkur) og vopnaþróun (geta okkar til að drepa okkur). Framfarasprengingin varð með rennandi vatni í hús, bættri geymslutækni matvæla, auknum samgöngum og því öllu. Tölvutæknin er auðvitað fín en hún hefur ekki stuðlað að neinum sérstökum framförum yfir það heila svo að ég fái séð; það er hægt að streyma þáttum heim í hús og auðveldara að senda fólki línu en um leið hefur öll miðlun splundrast, orðið ómarkviss og víða teflt lýðræðinu í tvísýnu, auk þess sem „gögn“ hrúgast á hendur fárra og eru nýtt með mjög vafasömum og oft pervertískum hætti.

Hins vegar er það allt þetta „gamaldags“ dót – klósett, baðkar, eldavél, ísskápur, lest, bátur, bók, ástvinur – sem enn gera líf okkar gott. Að vera alltaf ginnkeyptur fyrir því nýja er hættulegt þó að við séum auðvitað mörg svag fyrir því.

En sjálfkeyrandi bíll er hreinlega ekkert nútímalegur heldur frekar eitthvað mjög úrelt nánast áður en það verður til: að sitja inni í kassa sem fylgst er með öllum stundum og stjórnað af tækni sem við höfum ekkert um að segja hvernig nýtt er. Það hljómar bara eins og afturhvarf til einhverra tíma þar sem einstaklingurinn hefur sáralítið frelsi. Ég vil heldur halda sjálfur um stýrið. Ég vil vera mitt eigið hjól. (Eða bara sitja í lest innan um annað fólk.)“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí