Hefur grætt 12,9 m.kr. á hverjum degi undanfarin tólf ár

Guðmundur Kristjánsson, útgerðarmaður kenndur við Brim, greiddi sér í ár út 5,3 milljarð króna í arð út úr Útgerðarfélagi Reykjavíkur, sem hann á einn. Veiðigjöld sem lögð voru á alla útgerðina í fyrra voru 8,6 milljarðar króna. Þessi eini maður, Guðmundur í Brim, fékk því til sín sem arð um 62% af því sem eigandi auðlindarinnar allrar fékk til sín sem leigugjald.

Guðmundur hefur auðgast gríðarlega á nýtingu auðlindarinnar. Árið 2010 hét Útgerðarfélag Reykjavíkur Brim og var með eigið fé upp á tæplega 2,6 milljarða króna á núvirði. Í ár er eigið féð tæplega 49,3 milljarðar króna. Á tímabilinu hefur hlutaféð aðeins verið aukið um 134 m.kr. á núvirði. Eigið féð hefur því aukist um 46,6 milljarða króna af rekstrinum.

Á tímabilinu frá 2010 hefur Guðmundu greitt út úr Útgerðarfélagi Reykjavíkur rúmlega 9,8 milljarða króna í arð. Ef við leggjum þetta tvennt saman, vöxt eiginfjár umfram inngreitt hlutafé, og útgreiddan arð fáum við hversu mikið auður Guðmundar hefur vaxið á þessum tólf árum, frá árslokum 2010 til ársloka 2022. Auður Guðmundar hefur vaxið um rúma 56,4 milljarða króna á tímabilinu.

Það jafngildir 4,7 milljörðum á ári að meðaltali. 392 m.kr. á hverjum mánuði. Rúmlega 90 m.kr. á viku. 12,9 m.kr. á dag. 538 þús. kr. á hverjum klukkutíma, allan sólarhringinn allan ársins hring.

Þetta er aðeins sú ávöxtun sem eign Guðmundar gefur. Hann hefur líka verið starfsmaður Brims og fengið fyrir það góð laun.

Samkvæmt ársreikningi Útgerðarfélags Reykjavíkur fyrir árið 2022 var hagnaður þess 72,3 milljónir evra sem miðað við gengi og verðlag er um 10,9 milljarðar króna á verðlagi dagsins. Ástæða þessa mikla hagnaðar er annars vegar fádæma góðæri hjá stórútgerðinni vegna áhrifa stríðsins í Úkraínu á matarverð og hins vegar söluhagnaður af Sólborgu RE27, sem Útgerðarfélagið seldi dótturfélagi sínu sem aftur seldi skipið og aflaheimildir til Brims, sem Útgerðarfélagið er stærsti eigandinn að.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí