„Í þessum aðstæðum er ég ekki manneskja, heldur hjólastóll“

Embla Guðrúnar Ágústsdóttir, talskona Tabú og meistaranemi í félagsfræði, segir farir sínar ekki sléttar eftir að hafa flogið með Icelandair. Embla segir í pistli sem hún birtir á Facebook og hefur vakið talsverða athygli að það sé ekkert grín að fljúga í hjólastól. Hún segir að í þessum aðstæðum sé ekki lengur horft á hana sem menneskju heldur sem hjólastól.

Hér fyrir neðan má lesa pistil Emblu í heild sinni.

Fíllinn á flugvellinum

Ferðalagið gekk bara vel, hjólastóllinn komast heim í heilu lagi – standardinn er ekki mjög hár. Það hvernig heimurinn er hannaður fyrir tiltekna líkama, með ákveðna getu, verður aldrei jafn augljóst eins og þegar kemur að flugsamgöngum.

Við fjölskyldan fórum í frí til útlanda og allt gekk vel, þannig séð – en það er allt þetta strit, þetta fötlunarstrit í kringum það að fljúga sem er alltaf til staðar þó ,,allt gangi vel“. Það skal tekið fram að ég nota frekar lítinn og léttan hjólastól og ég get gengið um borð í flugvélar og af þeim sökum upplifi ég bara brotabrot af því sem margt annað fatlað fólk upplifir á ferðalögum – en nóg er nú stritið samt!

Icelandair gerir nú þá kröfu að farþegar sem ferðast með eigin hjólastól sendi inn upplýsingar um hjólastólinn að lágmarki 48 klst fyrir flug (hér er ekkert í boði að taka skyndiákvarðanir). Þegar mætt er á flugvöllinn hafa upplýsingarnar ekki skilað sér svo starfsmaður í innritun hefst handa við að fylla út pappíra og hringja símtöl. Eftir dæs og miklar áhyggjur af stærð stólsins og hvort batteríið sé hættulegt er kallað á yfirmanninn sem mætir á staðinn. Það er næstum alltaf kallað á yfirmanninn.

Við hliðina á mér situr drengurinn minn í kerru og drekkur kókómjólk og borðar snakk. Við vorum undirbúnar því að þetta gæti tekið tíma. Engin starfsmaður hefur þó haft áhyggjur af kerrunni hans, þó hún þjóni sama tilgangi og hjólastóllinn minn. Við þurftum ekki að tilkynna með 48 klst fyrirvara að við ætluðum að ferðast með okkar eigin barnakerru. Kerran hans þykir eðlilegur partur af ferðalögum fjölskyldna. Það er gert ráð fyrir kerrunni og flugvallarstarfsmenn ganga út frá því að við foreldrarnir kunnum á kerruna og vitum hvernig best sé að pakka henni saman þegar komið er að flugvélinni. Ekkert af þessu á við um hjólastólinn minn – hann þykir ekki eðlilegur partur af ferðalögum og flugvallarstarfsmenn gera ekki ráð fyrir að við höfum ferðast með stólinn áður og kunnum að pakka honum saman.

Jæja, nú er búið að hengja 4 miða á hjólastólinn og yfirmaðurinn hér í London er búinn að gefa grænt ljós. Við erum komin með brottfararspjöldin í hendurnar, teljum að allt sé frá gengið, þegar flugvallarstarfsmaðurinn segir að næst þurfi ég að fara að special assistance desk fyrir framan vopnaleitina og láta vita af mér þar. Neinei sagði ég, ég þarf enga aðstoð í gegnum flugvöllinn. Jú þú verður að tala við þau svo þau viti að það á að taka hjólastólinn þinn við hliðið og setja í flugvélina. Og ég sem hélt að þetta væri allt komið inn í tölvukerfið!

Næsta stopp er merkt með stóru hjólastólamerki special assistance, en þrátt fyrir það er þjónustuborðið svo hátt að ég sé ekki starfsfólkið sem situr við tölvurnar. Á einum stað er borðið lægra en þar situr enginn. Ég fer aftur með sömu æfðu rulluna, í þetta skipti í aðeins styttri útgáfu. Tveir starfsmenn taka við upplýsingunum, bogra svo saman yfir tölvunni og líta á hjólastólinn minn til skiptis.

Krakkinn er orðinn ansi óþolinmóður, búinn að gefast upp á kerrunni og stendur nú á lærunum mínum til að fylgjast með flugvallarstarfsmönnunum yfir háa þjónustuborðið. Jæja við getum haldið áfram en mér er tilkynnti að hinumegin við vopnaleitina sé annað þjónustuborð og að ég skuli tala við þau til að tryggja að stólinn minn verði tekinn við hliðið.

Mæti á næsta þjónustuborð meðan restin af fjölskyldunni fer í dótabúð. Þar er nákvæmlega sama upp á teningnum varðandi hæðina á borðinu. Ég segi enn styttri útgáfu af þaulæfðu rullunni. Rétti brottfararspjaldið. Sem betur fer eru starfsmennirnir 3 þarna aðeins afslappaðri ,, þú hefur gert þetta áður“ spyr einn og glottir. ,,Jeb“ svara ég og í því kemur drengurinn minn hlaupandi og segir mér að ég verði að koma og sjá dansandi risabangsa í búðinni. Ég fæ að fara en er sagt að koma fljótlega að hliðinu til að tryggja að hjólastóllinn minn verði tekinn inn í vélina.

Við mætum að hliðinu og þegar búið var að skanna alla miðana er okkur bent á að fara beint að flugvélinni. Vala heldur af stað með kerruna í gegnum hópinn af farþegum sem þegar hafði safnast saman við hliðið. Ég fylgi á eftir og gengur ágætlega að komast í gegnum farþegahópinn, að mér fannst. Konan sem gekk á eftir mér, flugvallarstarfsmaður, var greinilega ósammála mér því hún byrjaði að hrópa yfir fólkið “WE ARE COMING THROUGH WITH A WHEELCHAIR, PLEASE MOVE!” Í þessum aðstæðum er ég ekki manneskja, heldur hjólastóll sem tekur alltof mikið pláss og er mögulega hættulegur öðrum.

Við sjáum flugvélina útum gluggan og byrjum að pakka stólnum saman. Fjórir starfsmenn taka við hjólastólnum og við fylgjumst með þeim í gegnum gluggann brasa heillengi yfir stólnum úti á miðjum flugvelli.

„Af hverju setja þau ekki stólinn inn í mallann á flugvélinni mamma – ég held þau kunna ekki mikið með hjólastóla mamma.“ segir 3 ára sonur minn, fullur vantrausts. 

Á þessum tímapunkti hafa u.þ.b. 15-20 starfsmenn komið með einhverjum hætti að þessari 2 og hálfs klst dvöl okkar á flugvellinum – og ferðalagið er ekki einu sinni hálfnað!

Við lendingu í Keflavík er mér tjáð að ég geti ekki fengið hjólastólinn minn við landganginn, að ég fái flugvallarstól og minn komi í odd size. „Já Isavia segir það alltaf en svo er yfirleitt alltaf hægt að fá hann“ segi ég við almennilega flugfreyju. Það vildi svo heppilega til að ég vissi nákvæmlega hvar stóllinn var í vélinni því við sáum hann fara inn. Ég fylgdist með þeim afferma vélina útum gluggan á flugvélinni og um leið og stóllinn birtist lét ég flugfreyjuna vita. Stóllinn kom, alla leið að vélinni, óskemmdur – þvílikur léttir.

Af viðbrögðum og vinnubrögðum flugvallarstarfsmanna finnst mér oft eins og ég sé að ferðast með lifandi fíl milli landa en ekki hjólastól. Það er alltaf eins og engum öðrum hafi dottið í hug að ferðast með hjólastól og hvað þá fara með hann alveg að flugvélinni. Allt þetta starfsfólk, öll skriffinnskan og vanþekkingin.

Ég veit að ég er ekki ein og á samfélagsmiðlum er að finna mikinn fjölda frásagna svipaða þessari frá öðru fötluðu fólki og fjölskyldum. Víða um heim eru ýmsar herferðir sem berjast fyrir bættum aðstæðum í flugsamgöngum fyrir fatlað fólk. Flugsamgöngukerfið er manngert og þar af leiðandi er hægt að breyta því – ef við bara hefðum metnað fyrir því að virða ferðafrelsi og mannlega reisn fatlaðs fólks.

Ég hef einu sinni ekki lent í neinu veseni þegar ég flaug, það var mjög næs!

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí