Í vikunni kom bandaríski kjarnorkukafbáturinn USS Delaware í þjónustuheimsókn við strendur Íslands, nánar tiltekið nokkra kílómetra utan við Helguvík. Utanríkisráðuneytið greindi frá þessu og tók sérstaklega fram að báturinn bæri ekki kjarnavopn. „USS Delaware er orrustukafbátur af Virginia-gerð og bera slíkir kafbátar ekki kjarnavopn,“ sagði ráðuneytið á Facebook.
Þetta er ekki rétt. Í það minnsta stangast þessi fullyrðing Utanríkisráðuneytisins við fréttir frá árinu 2018. Þá greindu bæði breskir og bandarískir fjölmiðlar frá því að bandaríski sjóherinn hyggðist koma fyrir kjarnaoddum í orrustukafbátum af Virginia-gerð.
Það þótti marka talsverð umskipti þar sem þessi gerð af kafbátum hafði fram að því ekki borið kjarnavopn. Virginia-gerðin var flokkuð sem SSN-kafbátur, það er að segja kjarnorkuknúinn kafbátur vopnaður hefðbundnum vopnum, svo sem Tomahawk-eldflaugum. Ákvörðunin að koma fyrir kjarnaoddum Virginia-bátanna var tekin í forsetatíð Donald Trump og í fréttum sett í samhengi við vopnakapphlaup við Norður-Kóreu.
Óljóst er hvort báturinn sem var við strendur Íslands í vikunni, USS Delaware, hafi haft kjarnaodda um borð. Þó er ljóst að fullyrðing Utanríkisráðuneytisins um að orrustukafbátar af Virginia-gerð beri ekki kjarnavopn stenst ekki skoðun.
Ríkisstjórnin tilkynnti í apríl að stjórnvöld hefðu undirbúið eftirlitskomur kjarnorkuknúinna orrustukafbáta hingað til lands í um ár. Þórdís Kolbrún Gylfadóttir, utanríkisráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, tilkynnti Bandaríkjamönnum að kafbátar þeirra hefðu heimild til að hafa skipta út áhöfn við strendur Íslands og endurnýja kost sinn.
Í fréttatilkynningu ríkisstjórnarinnar lögðu bæði Þórdís og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra áherslu á að íslensk landhelgi væri friðlýst fyrir kjarnorkuvopnum. „Hefur þessi afstaða verið áréttuð í orðsendingu utanríkisráðherra til bandarískra stjórnvalda. Kafbátarnir sem fá heimild til að hafa hér viðdvöl bera ekki kjarnavopn samkvæmt stefnu Bandaríkjanna og eru ekki útbúnir til þess,“ sagði í tilkynningunni.