Stærsta verkalýðsfélag lækna í Ísrael, The Israeli Medical Association, hefur tilkynnt að það muni fara í 24 tíma verkfall til að mótmæla lagafrumvarpinu sem samþykkt var á ísraelska þinginu í gær. Um 95% ísraelskra lækna eru í félaginu. Um 73% lærlinga innan heilbrigðisgeirans munu einnig taka þátt í verkfallinu.
Verkfallið mun lama alla heilbrigðisþjónustu í landinu, en einungis verða gerðar undantekningar í neyðartilfellum. Læknar í Ísrael fóru í stutt verkfall í síðustu viku til að mótmæla frumvarpinu, en þeir sögðu að það væri eins konar viðvörun. Félag lækna segir að lagaumbæturnar sem ríkisstjórnin hefur komið í gegn muni rústa heilbrigðiskerfinu. Moshe Arbel, heilbrigðisráðherra Ísraels, ætlar að reyna að setja lög gegn verkfallinu.
Þetta bætist við mögulegt allsherjarverkfall, en stærstu verkalýðsfélög landsins funda nú og eru að plana slíkt. Einnig hafa 10.000 varahermenn sagst ætla að taka þátt í mótmælunum með því að neita að mæta til vinnu.
20.000 manns mótmæltu fyrir utan ísraelska þinghúsið í gær, þegar lögin voru samþykkt, og héldu þau mótmæli áfram langt fram á kvöld og nótt.