14. júlí er þjóðhátíðardagur Frakka, svokallaður Bastilludagur. Í kjölfar óeirðana sem áttu sér stað nýverið hafa frönsk stjórnvöld ákveðið að banna sölu á flugeldum í kringum þjóðhátíðardaginn. Flugeldar hafa ávallt leikið stórt hlutverk í þessum þjóðhátíðardegi Frakka, en ástæðan fyrir dagsetningunni, og nafngiftinni, er að 14.júlí 1789 réðst almúginn inní Bastilluna svokölluðu í París. Það markaði upphaf frönsku byltingarinnar.
Ríkisstjórn Macron í Frakklandi hefur tekið til ýmsa aðgerða, í þeim tilgangi að kveða niður mótmælaölduna í kjölfar þess að Nahel M., 17. ára piltur var skotinn til bana af lögreglumanni. Yfir 3.600 manns voru handtekin í mótmælunum, þar á meðal 1.160 ungmenni. Yfirvöld í Frakklandi búast því við miklum átökum á þjóðhátíðardaginn, og er þetta bann liður í því að koma í veg fyrir þau. Mótmælendur hafa mikið notað flugelda í átökum sínum við lögregluna, sem hún hefur svarað með táragasi og vatnsbyssum.
Franska ríkisstjórnin setti bann á mótmæli í kjölfar óeirðana, en þrátt fyrir það flykktust þúsundir út á götur Parísar í gær til að mótmæla lögregluofbeldi. Mótmælin áttu sér ekki einungis stað í París heldur á 30 öðrum stöðum víðsvegar um Frakkland, þar á meðal í Marseille og Strasbourg.