„Þar hafa bæði matvælaráðherra og Samkeppniseftirlit vanvirt mörk og mótvægi valdsins, beinlínis misnotað valdið. Þeirri valdníðslu verður að hrinda,“ stendur í leiðara Morgunblaðsins sem tekur undir kvartanir Guðmundar Kristjánssonar í Brim yfir rannsókn Samkeppniseftirlitsins á eignarhaldi sjávarútvegsfyrirtækja. Eftirlitið hefur sektað Brim um 3,5 m.kr. á dag fyrir að neita því um upplýsingar og byrja sektirnar að telja eftir tíu daga.
Þetta er annað málið sem Sjálfstæðisflokkurinn og stórútgerðin hefur gagnrýnt Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra Vg fyrir. Hitt er stöðvun hvalvertíðar. Eins og fram hefur komið á Samstöðinni er Svandís enn harðar gagnrýnd fyrir að hafa ekki bætt í strandveiðikvótann, en Sjálfstæðisflokkurinn og stórútgerðin tekur ekki undir þá gagnrýni, enda eru strandveiðar óþolandi að mati stórútgerðarinnar sem vill ein hafa aðgengi að fiskveiðiauðlindinni, telur sig eiga hana.
Og stórútgerðin vill ekki að stjórnvöld skoði á stjórnunar- og eignatengsl og samþjöppun í sjávarútvegi, enda eru stærstu keðjurnar löngu komnar upp fyrir þau mörk sem sett eru í lög til að fyrirbyggja að örfáir aðilar drottni yfir sjávarútveginum.
„Að sögn réðist Samkeppniseftirlitið í þá athugun að eigin frumkvæði, en þó ekki fyrr en matvælaráðherra hafði samið við það um að reiða af hendi 35 milljónir kr. til þess arna,“ er skrifað í leiðara Moggans. „Páll Gunnar Pálsson, forstjóri SKE áréttaði þetta í viðtali við Morgunblaðið í gær og þvertók fyrir að SKE væri í verktöku fyrir ráðuneytið, en sagði svo nokkrum andartökum síðar að vissulega væru fordæmi fyrir slíkum viðvikum eftirlitsstofnunarinnar fyrir ráðuneytið! Svör forstjórans og fullyrðingar úr matvælaráðuneytinu um hvaðan frumkvæðið að athuguninni kom eru ekki mjög trúverðugar, allra síst þegar litið er til samningsins, þar sem segir þegar í 1. grein að markmið athugunarinnar sé pólitísk stefnumörkun til uppfyllingar stjórnarsáttmálanum.“
„Allt ber málið þess merki að umgjörðin sé yfirvarp, að þar hafi Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra gert Samkeppniseftirlitið út í pólitíska fiskiferð,“ segir Mogginn og er helst á því að stjórnvöld ættu ekki að hnýsast um hvernig stórútgerðin fer með sín mál og fiskveiðiauðlindina.