Öfgahægri ríkisstjórn Benjamin Netanyahu náði í dag að koma í gegnum ísraelska þingið umdeildu lagafrumvarpi sem takmarkar áhrif hæstaréttar þar í landi. Frumvarpið var samþykkt með 64 atkvæðum gegn engu – en þingmenn stjórnarandstöðunnar yfirgáfu þingsalinn í mótmælaskyni.
Fyrir utan ísraelska þinghúsið geysuðu einnig mikil og hatrömm mótmæli, á meðan á atkvæðagreiðslunni stóð. Lögreglan notaði vatnsbyssur í þeim tilgangi að reyna að dreifa fjöldanum. Mótmælendur brugðust við með miklum hrópum og köllum þegar frumvarpið var samþykkt.
Hið umdeilda frumvarp var kynnt fyrir þinginu fyrir sjö mánuðum síðan og hefur það verið mikið mótmælt og gagnrýnt allar götur síðan þar í landi. Frumvarpið, sem kynnt er sem lagaumbætur af ríkisstjórninni, snýst í raun um að fella úr gildi lög sem kveða á um að hæstiréttur þar í landi geti fellt úr gildi ákvarðanir ríkisstjórnarinnar. Gagnrýnendur hafa lýst frumvarpinu þannig að það felli í rauninni þrískiptingu valdsins úr gildi og er því alvarleg árás á lýðræði í landinu.
Ísraelski þingmaðurinn Ofer Cassif, sem er á þingi fyrir ísraelska kommúnistaflokkinn Hadash, sagði að Ísrael væri að breytast í fasista einræðisríki.
Hundruðir þúsunda mótmælenda hafa mótmælt þessu frumvarpi á götum Ísraels á árinu. Segja þeir að um árás á lýðræðið sé að ræða. Samkvæmt tölum frá ísraelskri lýðræðisstofnun hefur einn fjórði af öllum Ísraelum tekið þátt í mótmælunum.
Leiðtogi stærsta verkalýðsfélags Ísraels sagði að hann hyggðist funda með leiðtogum annarra verkalýðsfélaga um allsherjar verkfall í landinu til að mótmæla nýju lögunum. Verkföll voru haldin í mars síðastliðnum, sem fékk ríkisstjórnina til að stöðva tímabundið afgreiðslu frumvarpsins.
Itamar Ben-Gvir leiðtogi öfgahægri flokksins Jewish Power Party, segir þó að þessar lagaumbætur séu aðeins byrjunin á því sem koma skal.
Isaac Herzog, forseti Ísrael, sagði að neyðarástand ríkti í landinu.