Nýjasta kvikmynd Christopher Nolan, Oppenheimer, er komin í bíó. Kvikmyndagagnrýnendur hafa almennt hrósað myndinni mikið, en þegar þetta er skrifað er myndin með 9,0 í einkunn á Imdb og 93% á Rotten Tomatoes. Myndin fjallar um eðlisfræðingin J. Robert Oppenheimer og Manhattan verkefnið sem hann stýrði, en það verkefni snerist um að ná að smíða kjarnorkusprengju á undan nasistunum í Seinni heimsstyrjöldinni.
Hin ýmsu baráttusamtök gegn kjarnavopnum hafa af þessu tilefni tjáð sig um myndina, og virðast sumir talsmenn þeirra hafa blendnar tilfinningar gagnvart henni.
Carol Turner, sem situr í stjórn samtakanna Campaign for Nuclear Disarmament í London, gagnrýnir til dæmis myndina fyrir að sýna þróunarferli kjarnavopna sem spennandi verkefni, og vísindalegt afrek, frekar en fulla hryllingin sem mannkynið stendur frammi fyrir vegna þeirra. Einnig gagnrýnir hún að myndin sýni ekki allan hryllingin við vörpun kjarnorkusprengjanna á Japan, en þeir atburðir eru sýndir í lok myndarinnar. Hún bendir einnig á að þrátt fyrir að það sé sögulega rétt hvernig myndin lýsir siðfræðilegum innri deilum Oppenheimers, þá er það vandkvæðum bundið hvernig að – með því að setja hann í aðalhlutverkið – þá geri myndin hann að ákveðinni hetju.
Turner fagnar þó að myndin veki athygli á þessum málaflokki, sérstaklega í ljósi stríðsins í Úkraínu, en áhugi almennings á kjarnavopnum hefur verið í algjöru lágmarki síðustu ár.
Diédre Paterno Pai, yfirmaður samtaka gegn stríði, Pax Sapiens, segir í samtali við The Guardian að almenningur geri sér almennt ekki grein fyrir hversu auðvelt það væri fyrir heiminn að leiðast út í kjarnorkustríð.
Sebastian Brixey-Williams, framkvæmdastjóri hugveitunnar Basic, er þó nokkuð jákvæðari í garð myndarinnar, en hann vonar að myndin veki almenning til umhugsunar um þessi mál. Hann bendir á, eins og Turner, að áhugi almennings á málaflokknum sé í algjöru lágmarki, og vonast hann til að myndin verði liður í því að breyta því og fá fólk til að byrja að berjast gegn kjarnavopnum á ný.