„Ég hef áður sagt að ég telji að það þurfi að fara betur yfir hvalveiðibannið og vænti þess að slíkt verði gert. Hugsanlega verði ákvörðunin endurskoðuð. Þetta er hins vegar afmarkað mál og ég tel að í öllum samsteypustjórnum sé viðvarandi verkefni að jafna ágreining af einhverjum toga. Ekki síst verður raunin sú þegar jafn ólíkir flokkar og nú standa að ríkisstjórn. Jú, oft er málefnalegur ágreiningur innan ríkisstjórnarinnar en aldrei þó þannig að alvarlega hafi slegið í brýnu,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra í Mogga dagsins.
Það eru því væntingar meðal Sjálfstæðisflokks og Framsóknar að Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra dragi til baka ákvörðun sína um frestun hvalveiða. Ef það á að gagnast Hval hf. þyrfti það að gerast fljótt.
„Meðal ráðherra ríkisstjórnarinnar er sterkur vilji til þess að láta samstarfið ganga upp, enda þótt ágreiningur hafi verið um einstaka mál. Í stærstu og mikilvægustu verkefnum ríkisstjórnarinnar, sem eru efnahagsmálin og baráttan við verðbólguna, erum við hins vegar samstiga,“ sagði Sigurður Ingi við Mogann.