Eftirfarandi er íslensk þýðing á grein Slavoj Žižek sem birtist í The New Statesman í gær:
Tveir atburðir hafa staðið uppúr á þessu sífellt sjúkara sumri: misheppnuð uppreisn í Rússlandi og óeirðirnar í París. Jafnvel þótt að þetta tvennt hafi verið mikið í fjölmiðlum, þá er einn mikilvægur hluti sem virðist hafa farið framhjá fólki.
Gripdeildir og íkveikjur breiddust útum alla París eftir að lögreglan skaut til bana 17 ára pilt að nafni Nahel í Nanterre úthverfi Parísar 27.júní. Í öðrum borgum einnig settu mótmælendur upp vegartálma, kveiktu elda og skutu flugeldum að lögreglunni, sem svaraði með táragasi, vatnsbyssum og sprengjum.
Ástandið versnaði svo til muna þegar að lögreglan byrjaði í sífellt meiri mæli að hóta uppreisn ef forseti Frakklands, Emmanuel Macro, kæmi ekki böndum á ástandið. Franska lögreglan sendi frá sér tilkynningu sem var ekkert annað en áfellisdómur yfir ríkísvaldinu: harðlínumenn í lögreglunni voru að hóta að gera uppreisn gegn ríkinu.
Fyrirsjánlega narratíva vinstrisins hefur verið sú að lögreglan geri upp á milli kynþátta, að égalité [jafnrétti] sé skáldskapur, að ungir innflytjendur þar í landi geri uppreisn vegna þess að þeir hafi enga framtíð, ásamt því að leiðin útúr þessari krísu sé ekki meiri lögregluvald heldur róttæk umbreyting fransks samfélags. Þessi reiði sé eitthvað sem búin er að vera að byggjast upp í mörg ár, og drápið á Nahel hafi verið kornið sem fyllti mælinn. Ofbeldisfull mótmæli séu viðbrögð við ástandi, ekki vandamálið sjálft.
Það er alveg einhver sannleikur í þessari narratívu. Þegar mótmælin hófust árið 2005 – eftir dauða tveggja unglinga úr raflosti sem voru að reyna að flýja undan lögreglunni – kom uppá yfirborðið sú kúgun og mismunum sem einkennir líf ungra innflytenda í Frakklandi. Hinsvegar, þá er það að umbylta samfélaginu í þeim tilgangi að leysa vandamál tengd sjálfsmynd, efnahagslegri útilokun og óréttlæti nýlendustefnunnar eitthvað sem er vandkvæðum bundið. Slíkt gerir ráð fyrir framsækinni niðurstöðu, þegar hún virðist ekki vera í boði.
Svo dæmi sé tekið, þá er það að mótmælendur tóku strætóa fyrir merki um að óeirðirnar rústuðu þeim hlutum sem gagnast lífi venjulegs fólks, fórnarlömbin hérna eru því hin fátæku frekar en hin ríku.
Opinber mótmæli og uppreisnir geta leikið jákvætt hlutverk ef þar að baki er skýr sýn um lausn, til dæmis eins og í Maidan uppreisninni í Úkraínu 2013-2014, ásamt mótmælunum sem nú eiga sér stað í Íran sem kúrdískar konur sem neita að vera í búrkum standa fyrir. Stundum er hótun um ofbeldi nauðsynlegt til þess að ná fram pólitískum lausnum. Tvö atvik, sem frjálslyndir hafa kanóniserað, eru þegar ANC komst til valda í Suður-Afríku og borgararéttindahreyfing Bandaríkjanna sem leidd var af Martin Luther King Jr., en þeir atburðir voru einnig mögulegir vegna þess að á baki lá möguleiki á alvarlegu ofbeldi ef kröfum þeirra yrði ekki hlýtt, frá róttækari væng ANC og herskárri baráttufólks blökkumanna í Bandaríkjunum. Endalok aðskilnaðarstefnunnar í Suður-Afríku og í Bandaríkjunum heppanðist vegna þessara hótana.
Þetta er hinsvegar ekki ástandið í Frakklandi í dag, þar sem að ofbeldisfull uppreisn er ólíkleg til að enda með nokkurs konar framsækinni lausn fyrir úrhrök jarðarinnar „[the wretched of the earth“, heiti Frantz Fanon yfir hina allra fátækustu]. Ef lögum og reglu sé ekki komið á innan tafar, þá mun niðurstaðan að öllum líkindum verða sú að Marine le Pen verði kosin til valda, leiðtogi öfgahægri flokksins, og hún muni verða næsti forseti. Öfgahægri flokkarnir sitja við ríkisstjórnar borðið í Svíþjóð, Noregi og á Ítalíu – hvers vegna ekki í Frakklandi? Macron hefur markaðssett sjálfan sig sem teknókrata sem hefur enga djúpa pólitíska sannfæringu. Þetta er eitthvað sem var einu sinni séð sem styrkleiki hans, en er nú farið að líta út fyrir að vera banvænt vandamál fyrir hann.
Í Rússlandi var ekki hægt að komast hjá því að taka eftir kómískum hliðum uppreisnar Yevgeny Prigozhin gegn Moskvu. Innan 36 tíma var Kremlin búið að bjóða honum díl. Prigozhin hefur komist hjá réttarhöldum, en neyddist til að draga málaliða sína til baka frá Úkraínu og flytja til Belarús. Við vitum ekki nægilega mikið til að geta sagt hvað gerðist raunverulega: var uppreisn hans meint sem tilraun til að taka Moskvu yfir af fullum þunga, eða var þetta innantóm hótun sem var aldrei ætluð sem raunverulegur möguleiki, eins og Prigozhin hefur sjálfur gefið til kynna? Allur þessi atburður gæti hafa verið harkaleg gerð af samningaviðræðum – tilraun til að koma í veg fyrir samþykkt yrðu lög gegn málaliða hersveitum eins og Wagner hópnum og myndi skylda þá til þess að lúta stjórna almenna hersins.
Hvort sem að þetta hafi verið tilraun til valdaráns, eða viðskipta samningaviðræður, þá gefur atburðurinn til kynna að Rússland sé orðið að failed state – ríki sem þarf að koma fram við stjórnlausar málaliða hversveitir sem viðskiptafélaga.
Atburðirnir í Frakklandi og Rússlandi eru hluti af þróun Evrópu í átt til meiri óstöðugleika, krísa og stjórnleysis. Í dag eru failed states ekki einungis að finna fyrir neðan miðbaug, hjá Sómalíu, Pakistan og Suður-Afríku. Ef mælikvarði okkar á þannig ríki er upplausn ríkisvaldsins, síversnandi hugmyndafræðilegu borgarastríði, stjórnmálum sem koma engu í gegn, ásamt því að öryggi almannasvæða sé sífellt verr tryggt, þá ættum við að líta svo á að Rússland, Frakkland, Bretland og jafnvel Bandaríkin séu í sama flokki.
Þann 19.júní 2022 samþykktu stjórnmálamenn í Texas tillögu sem kvað á um að Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, hefði ekki verið kosinn á réttmætan hátt, ásamt því að fordæma þingmann Repúblikana, John Cornyn, fyrir að taka þátt í samræðu við Demókrata um hertari vopnalöggjöf. Þeir kusu einnig með tillögu sem kvað á um að samkynhneigð væri „abnormal lífstílsval“ og kallaði eftir skólabörn í Texas lærðu um „mennskuna í ófæddum börnum“.
Fyrsta tillagan, sem kveður á um að Biden hafi ekki verið kosinn á réttmætan hátt er augljós aðgerð í „köldu“ borgarastríði í Bandaríkjunum, sem miðar að því að kippa undan hinni pólitísku skipan. Í Frakklandi er öfgahægrið búið að normalisera tal um komandi borgarastríð. Í útvarpinu í Frakklandi, 30.júní, talaði öfgahægri maðurinn Éric Zemmour um óeirðirnar í París sem byrjunina á „borgarastríði og stríði milli kynþátta.“
Í svona ástandi verður vinstrið að taka að sér að tala fyrir lög og reglu. Ein af sorglegustu staðreyndum síðari tíma er sú að eina dæmið um ofbeldisfulla uppreisn gegn valdinu hafi verið 6.janúar 2021, þegar stuðningsfólk Donald Trump réðst inní þinghús Bandaríkjanna í Washington DC. Þeir aðilar litu á kosningarnar sem ólögmætar, sem stolnar voru af viðskiptaelítunni. Frjálslyndir fylgdust með atburðum með blöndu af hryllingi og áhuga. Nokkrir vina minna lýstu yfir að „við ættum að vera að gera eitthvað svipað!“ Það var bæði öfund og fordæming á meðan að þeir horfðu á „venjulegt“ fólk brjótast inní æðstu valdastöðvar ríkisins, og náðu að gera karníval stemmingu sem afnam tímabundið reglur samfélagsins.
Tókst öfgahægrinu að stela andstöðu vinstrisins gegn ríkjandi ástandi, með því að ráðast gegn valdasætum ríkisins? Er okkar eini valkostur nú kosningar sem stýrðar eru af spilltri elítu, eða uppreisnir stýrðar af öfgahægrinu? Það er ekki furða að Steve Bannon, hugmyndafræðingur öfgahægrisins, kalli sig „lenínista fyrir 21.öld.“ : „Ég er lenínisti. Lenín langaði að rústa ríkinu, og það er einnig mitt takmark. Mig langar að fá allt til að hrynja, eyðileggja allt ríkjandi kerfi.“ Á meðan að öfgahægrið fagnaði 6.janúar, hegðuðu frjálslyndir sér eins og gamaldags íhaldsmenn – kölluðu eftir að þjóðvarðliðið myndi kæfa uppreisnina.
Það er einkennileg blanda af anarkíu og harðs alræðisvalds við rætur þessa furðulega ástands. Við erum að ganga inní timabil uppreisnar þar sem fjöldinn ræður ferðinni, á sama tíma og völdin safnast saman í hendur hinna fáu. Eins og heimspekingurinn Catherine Malabou lýsir því, þá er þetta „sambland sem er óskiljanlegt, hryllilegt og án fordæma – sambland hins lárétta og lóðrétta, hins villimannslega og óstjórnlega.“ Þar sem að grafið hefur verið undan félagslega hlutverki ríkins í gegnum sveltistefnu síðustu ára, þá getur það einungis tjáð sig í gegnum „notkun ofbeldis.“
Þess vegna er það bráðmikilvægt að afskrifa ekki ríkið sem einungis tól kúgunar. Í náttúruhamförum, heilbrigðiskrísum og félagslegum óstöðugleika, þá verða framsæknu öflin að reyna að taka yfir ríkisvaldið og nota það, ekki einungis til að róa áhyggjur fólks á krísutímum, heldur einnig til að berjast á móti öflunum sem boða rasisma, útlendingaandúð, kvenhatur og íhaldssemi, eitthvað sem kynt er undir til að hafa stjórn á fólki.
Vinstrið ætti ekki að vera hrætt við að taka að sér að tryggja öryggi venjulegs fólks: það eru mörg skýr merki um hnignandi ástand, hópar ungmenna til dæmis herja á opinber svæði og skemma, frá lestarstöðvum til verslunarmiðstöðva. Að ræða þetta ástand er oft eitthvað sem litið er á sem óframsækið, að við ættum frekar að líta til „dýpri, félagslegra róta“ fyrirbærisins, eins og atvinnuleysi og kerfislægan rasisma.
Hinsvegar, ef vinstrið hugsar ekki um öryggi almennings, þá er það að gefa í hendur óvinarins mikilvægt atriði sem ýtir fólki til hægri á tímum stjórnleysis. Hversdagslegt óöryggi skaðar þá fátæku mun meira en hin ríku sem búa við algjöra ró í lokuðum hverfum sínum.