Eva Hauksdóttir lögmaður skrifar skoðanagrein á Vísi í dag þar sem hún gagnrýnir Íslenska ríkið, útlendinga- og vinnumálastofnun harðlega fyrir meðferð sína á fólki í leit að vernd og afgreitt er á óréttmætan máta í skjóli Dyflinarreglugerðarinnar. Þá þykir henni ámælisvert að svipta fólk fararleyfi og skilja það eftir allslaust á götunni velji það að draga umsókn sína um vernd til baka. Þetta á við um konu og barn frá Afganistan sem eru nú hér á landi vegabréfslausir strandaglópar í boði ríkisins.
Konan sem um ræðir kom hingað með barn á grunnskólaaldri í janúar s.l með viðkomu á Ítalíu.
Eftir fjögurra mánaða bið án þess að barnið fengi að ganga í skóla eða nokkurt svar bærist þeim um vernd á Íslandi ákvað hún að draga umsóknina til baka og fara aftur til Ítalíu.
Eva segir að umsóknin hafi verið dregin formlega til baka þann 12. júní eftir að konan hafi þurft að bíða í þrjár vikur eftir undirritunartíma. Þá fékk hún tilkynningu um að hún ætti að yfirgefa húsnæði sitt í dag þann 13. júlí.
Lögmaðurinn rekur einnig í greininni hvernig rétturinn til löglærðs talsmanns fellur niður eftir að máli einstaklinga er lokið af hendi yfirvalda og framfærsla og húsnæði á sama máta. vinnumálastofnun hafi þó heimild til að halda slíku gangandi ef ástæður þess að einstaklingur fer ekki af landi brott eru ekki á hans valdi. Það er því með öllu undarlegt að konan hafi ekki fengið haldgóð svör um hvernig og hvenær hún kæmist aftur til Ítalíu en þrátt fyrir það verið svipt réttindum sínum.
Á Ítalíu hefur ríkt neyðarástand í straum flóttamanna frá því í Apríl og hafa yfirvöld neitað að taka við hælisleytendum sem önnur ríki vilja senda aftur til baka á grundvelli Dyflinarreglugerðarinnar. Þannig segir Eva að stoðdeild ríkislögreglustjóra, sem átti að fylgja konunni og barni hennar af landi brott,geti það ekki þar sem enginn mun taka á móti þeim.
Eva segir Dyflinarreglugerðina virka prýðilega til að losna við fólk sem Útlendingastofnun vill ekki sinna en minnir á að hún sé ekki einungis hugsuð stjórnvöldum til hagræðingar heldur eigi hún líka að tryggja fólki sem flýr heimaríki sín lágmarks öryggi svo þau standi ekki uppi réttindalaust. Reglugerðin feli til dæmis ekki í sér heimild til að svipta fólk vegabréfi og mannréttindum án málsmeðferðar auk þess sem aðild Íslands að alþjóðlegu samstarfi feli í sér að mannréttindi fólks sem statt er innan lögsögu ríkisins séu virt.
Eva segir í viðtali við Vísi að henni persónulega komi þetta mál ekki við en að fólki geti ekki látið sig það engu varða þegar þegar fólki er bara hent út á guð og gaddinn.