Tugþúsundir manna mótmæla nú í Bangladess. Krafan er sú að forsætisráðherrann Sheikh Hasina, segi af sér fyrir næstu kosningar, sem haldnar verða í janúar. Stærstu mótmælin eiga sér stað í höfuðborginni, Dhaka, en þau eru einnig í öðrum borgum þar í landi.
Flokkur Hasina hefur farið með stjórn landsins síðan 2009, en mótmælendur saka bæði forsætisráðherrann og flokkinn um víðtæka spillingu og mannréttindabrot. Khaleda Zia, leiðtogi stjórnarandstöðunnar og fyrrum forsætisráðherra, ásamt leiðtogum annarra minni flokka, standa fyrir mótmælunum.
Að minnsta kosti einn hefur látist og hundruðir hafa slasast hingað til.
Í Dhaka fóru mótmælendur í kröfugöngu sem var 13 kílómetra löng og stöðvaði umferð. Samkvæmt sjónarvottum var ráðist á leiðtoga göngunnar, og einn drepinn. Var þar um að ræða fólk hliðhollt ríkisstjórninni. Þar fyrir utan hefur lögreglan einnig tekið harkalega á mótmælendum, meðal annars með haglabyssum.