Björn Þorláksson, blaðamaður og rithöfundur, skrifar áhugaverðan pistil á Facebook. Þar ræðir hann flótta ungs fólks frá landinu, sem honum hafði borist til eyrna. Eins og Björn lýsir því, þá eru Íslendingar í ákveðnu ofbeldissambandi við sjálfa sig – eitthvað sem Íslendingar vilja þó helst ekki ræða.
Hann fer um víðan völl í pistlinum, og ræðir frændhyglina, spillinguna, og óttann sem einkennir Ísland.
Við skulum bara leyfa pistli Björns að tala fyrir sig sjálfan:
Ofbeldissambandið – Við þurfum að tala um okkur sjálf
Á tveimur síðustu dögum hefur borist mér til eyrna að þrír ungir Íslendingar úr þremur ólíkum fjölskyldum, hafa tekið ákvörðun um að flytja til útlanda og koma aldrei aftur.
„Ég get ekki Ísland,“ sagði eitt þessara ungmenna í samtali við mig, ung kona um þrítugt, dóttir vinahjóna. Hún telur að spillingin, hugleysið og heimskan, séu ríkjandi mein hér á landi. Hún er leifturklár og vel menntuð þessi unga kona, sumpart vegna skólagöngu sem íslenska ríkið kostaði, en ekki síður er hún sjálfsmenntuð af því að stúdera umheiminn og bera hann saman við skerið okkar.
Hún segir að þótt allir viti að nepótismi og tengsl ráði flestum tækifærum hér á landi fremur en verðleikar einstaklinga, eigi þeir sem standa utan tækifæranna oft engan annan kost en að líta undan.
„Því þá fyrst ef fólk ræðir mein samfélagsins upphátt, er viðbúið að viðkomandi verði ýtt út á jaðarinn. Maður er annaðhvort þaggaður eða hundsaður í hel eða þá að maður fer á svartan lista, sem er enn verra,“ segir hún, þátttakandi í gagnrýninni umræðu, þátttakandi í ungmennahreyfingu stjórnmálaflokks hér á landi.
En ekki lengur. Hún er að pakka niður. Búið. Bless. Hennar mun bíða frami og virðing utan landsteinanna, spái ég. Á sama tíma eru hennar líkar hér innanlands flokkaðir sem vanþakklátir vandræðapésar. Æi, farðu bara. Gott að losna við þig.
Unga fólkið er á flótta héðan, ekki bara vegna skoðanakúgunar og kröfu um yfirhylmingu. Það er líka á flótta vegna þess að landið er erfitt til búsetu fyrir ungt fólk sem ekki fæðist inn í efnaðar fjölskyldur.
Það er harla vonlítið að safna fyrir útborgun til að kaupa húsnæði í landi, þar sem leigumarkaður er mest megnis tæki sem hinir ríku beita sem svipu til að verða enn ríkari. Sturlaðir vextir bankanna, þeirra stofnana sem virðast ekki láta hag almennings sig nokkru varða, sturlað vöruverð og sturlaður kostnaður við ýmsa þjónustu sem áður var ókeypis og greiddur af ríkinu, sligar ungt fólk, þann hóp sem ekki er svo heppinn að alast upp við forréttindi tengsla eða efnahags.
Þeir sem ná þó með lántökum og tvöfaldri vinnu að nurla saman fyrir íbúðarkaupum, þurfa líka oft að sætta sig við svo þungan fjárhagslegan myllustein um hálsinn æ síðar, í raun fram á háa elli, að þeir munu aldrei að óbreyttu geta borið höfuðið hátt. Þeir þurfa að sætta sig við að kaupa peninga hjá þeim sem eiga Ísland, kaupa peninga sem eru svo rándýrir að það þarf að greiða þá margfalt til baka. Á sama tíma vita allir að Ísland er svo ríkt af náttúruauðlindum, hér verða til svo mikil auðævi á hverjum degi, að hvert og eitt okkar ætti ekki bara að lifa mannsæmandi lífi heldur gætum við öll átt blómlegan efnahag.
Við höfum vanist þessu ástandi, við höfum sætt okkur við að örfáir skari eld að eigin köku á kostnað allra hinna. Þessir örfáu ráða öllum helstu tengingum, þeir ráða helstu fjölmiðlum, þeir ráða umræðunni, þeir hafa búið til SUSS-samfélagið!
Það er ekki vegna þess að hinir þöglu og kúguðu séu svo siðspilltir sjálfir, að þeir þegi til þess eins að eygja von um bitling síðar. Nei. Þeir sem standa utan kjötkatlanna þegja, þrátt fyrir spillinguna og órétinn, vegna þess að ef þeir berja í borðið hafa þótt mjög miklar líkur á að knappar lífsbjargir þeirra verði að engu.
Í Guðsgjafaþulu Laxness segir af fyrsta íslenska stórbissnessmanninum sem sópaði að. Hann var drukkinn flesta daga eins og virðist hafa verið hlutskipti flestra Íslendinga sem fóru utan áður og þurftu æ síðar að lifa með vitneskjunni um andlega og veraldlega fátækt hér á landi, sem þeir uppgötvuðu ekki fyrr en með samanburði við umheiminn. Það varð þessu fólki of þung raun að sjá sannleikann, enda er ignorance bliss. Enn er talin dyggð að umfaðma ignoransinn. Fáhyggjan er þjóðaríþrótt.
Íslands-Bersi var enginn snillingur í viðskiptum. Vegna þvermóðsku hans úldnaði síldin á kajanum í Köben og fór þar með vinnuframlag verkafólksins í norðri fyrir lítið. En af því að enginn þótti honum þó skárri, var honum treyst til að fara með efnahag heillar þjóðar. Það ævintýri endaði með að ríkið neyddist til að greiða upp allar skuldir hans sem fylgdu taumleysislifnaði mógúlsins á dýrasta hóteli heims. Kannast maður við stefið? Fyrsta hrunsagan. Útgefin tæpum 40 árum fyrir árið 2008.
Nóbelskáldið okkar sá ungt að árum hina inngrónu meinsemd. Hvernig fólk sem mikið fór fyrir og fæddist inn í fjölskyldur sem áttu eitthvað – ólíkt almúganum – gat spilað á þjóð sína eins og hörpu. Vegna utanferða skáldsins, vegna alls þess sem hann fræddist um á mýmörgum tungum, sá Laxness að kasúldnir og kúgaðir sveitalubbar íslenskir – keyrðir niður í íslenskan svörð með órétti og harðræði um 1000 ára skeið – gátu fátt annað gert en að stara út í bláinn og fara með sérviskulega stöku. Nóbelskáldið fann bjargir til að tengja sig Internetinu, löngu áður en það var fundið upp. Ég hef alltaf lesið út úr verkum Laxness að honum hafi þótt vænt um eigin þjóð en um leið verið meðvitaður um að hinn dæmigerði Íslendingur sé vinnusamur hversdagsmaður, langveikur í sálinni vegna árhundraða ofbeldissambands við yfirboðara. Vistarband? Ungbarnadauðinn? Þjóðartráma.
Íslensk alþýða er fuglasali án markaðar eins og lesa má um í absúrdisma Guðsgjafaþulu. Íslensk þjóð er alltaf til í að ræða það sem skiptir engu máli. En verður annars hvumsa.
Nú þegar öll veröldin hefur opnast ungu fólki, flæmum við frá okkur þau sem segjast ekki „geta Ísland“. Það fólk nennir ekki að drekka frá sér heilasellurnar til að sættast við eigin ömurlega hlutskipti, bikar vitneskjunnar er því ekki of beiskur, líkt og áður var. Ungt fólk ber nærsamfélagið saman við það sem best gerist í umheiminum. Það elst upp við alheimssamanburð. „Því ætti ég ekki að búa í London eða í Kaupmannahöfn, þar sem launin eru svipuð og hér, en húsnæðislánið mitt byrjar að lækka um leið og ég greiði af því?
Þetta þurfum við að tala um. En það er ekki aumingjaskapur sem ræður því að mörg okkar erum of hrædd til að tjá okkur upphátt. Óttinn er ekki af ástæðulausu. Verkefnið að breyta Íslandi til hins betra er ekkert áhlaupaverk. En að halda áfram að þegja og líta endalaust undan er það sem gagnast gerendum í ofbeldissambandi mest. Fantarnir vilja að við trúum að þeir séu ósigrandi. Þeir eru það ekki. Það eru til aðrar leiðir en að flýja land…