Andófshópurinn Við, fólkið í landinu opnaði í eftirmiðdaginn í gær vefsíðu þar sem fólki var boðið að reka Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra. Þetta var ekki kynnt með öðrum hætti en að vefslóðin var sett á síðu hópsins á Facebook. Í morgun höfðu yfir þúsund manns gripið tækifærið og rekið Bjarna Ben.
Vefsíðan er einskonar uppsagnarbréf til Bjarna. Þar stendur: Þú seldir vinum þínum eigur okkar á allt of lágu verði. Þér var treyst en þú ert ekki traustsins verður. Þú ert rekinn sem fjármálaráðherra. Gangi þér vel að finna aðra vinnu.
Hugmyndin virðist vera sú að hver og einn borgari geti rekið Bjarna fyrir sína parta. Og að Bjarna verði svo afhent uppsagnarbréfið.
Tilefni uppsagnarinnar er líkast til salan á Íslandsbanka en þó gæti salan á eignum ríkisins í gegnum Lindarhvol fallið þarna undir. Við, fólkið í landinu stóð fyrir mótmælum á Austurvelli í fyrra þegar upplýst var hverjir hefðu keypt hlutabréf ríkisins í Íslandsbanka í lokuðu útboði. Þá var þessum verknaði mótmælt, meðal annars undir kröfunni Bjarna burt!
Segja má að sagan hafi sýnt að þessi mótmæli voru réttmæt og brýn. Ríkisendurskoðun komst að þeirri niðurstöðu að bankasýslan, sem Bjarni fól framkvæmd sölunnar, var ófær um að sinna þessu verkefni. Og fjármálaeftirlitið sá að lög höfðu verið brotin og sektaði Íslandsbanka fyrir sinn þátt um 1.160 m.kr. Innan Íslandsbanka hafa allir stjórnendur sem komu að sölunni ýmist hætt eða verið reknir. Rannsókn fjármálaeftirlitsins á öðrum söluaðilum stendur enn yfir. Umboðsmaður Alþingis er að skoða einhverja þætti aðkomu fjármálaráðuneytisins að þessu máli.
Það var Alþingi sem heimilaði söluna á Íslandsbanka. Og þingið fól Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra að sjá um söluna.
Þau sem vilja reka Bjarna geta gert það hér: Þú ert rekinn Bjarni