Í gær, þriðjudag, innti blaðamaður Vísis Guðmund Inga Guðbrandsson félags- og vinnumálaráðherra eftir stöðu þess flóttafólks sem dvelur heimilislaust á landinu og án atvinnuleyfis eða annarra leiða til að sjá sér farborða. „Það er samtal í gangi og við vonumst auðvitað bara til þess að við sjáum til lands sem allra fyrst,“ svaraði ráðherra.
Er einhver tímasetning í augsýn? spurði blaðamaður. Guðmundur Ingi svaraði: „Við erum bara að flýta okkur eins mikið og mögulega er hægt, enda er málið afskaplega brýnt í mínum huga.“
Frétt um þetta deildi Drífa Snædal, talskona Stígamóta, á Facebook seint á þriðjudag, með stuttum ummælum:
„Nú eru liðnir 18 dagar síðan það var ljóst að fólk var svipt lágmarksöryggi í kjölfar nýrra útlendingalaga og frjáls félagasamtök og einstaklingar komu í veg fyrir að stór hópur lenti sveltandi á götunni.“
Stígamót eru á meðal þeirra 28 félagasamtaka sem létu frá sér sameiginlega yfirlýsingu vegna málsins fyrr í mánuðinum. Þar sagði, þar sem þau sögðust harma að ekki skuli hafa verið tekið tillit til ítrekaðra varnaðarorða varðandi afleiðingar nýrra lagaákvæða“ og skoruðu á yfirvöld „að tryggja öryggi þessa hóps, mannréttindi og grunnaðstoð með virku samráði við hjálpar- og mannréttindasamtök.“
Helga Vala Helgadóttir þingmaður skrifar kaldhæðna athugasemd við færslu Drífu: „Ekki þessi leiðindi alltaf hreint – erum við ekki öll sammála um að fagna samtalinu?“
Ef 18 dagar voru á þriðjudag liðnir frá því að fyrst spurðist til málsins eru þeir orðnir 19 í dag, miðvikudag.