„Á fundi Bjarna kom skýrt fram að hann hefur ekki kjark“

Verkalýðsmál 29. ágú 2023

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, kynnti fyrir helgi í aðdraganda fjárlagafrumvarps sem kemur út í haust aðgerðaáætlun sem ber yfirskriftina – Forgangsraðað fyrir öflugt samfélag.

Gríðarlegur og stjórnlaus vöxtur í ferðaþjónustu með auknu álagi á opinbera þjónustu hefur skapað forsendur fyrir hagvexti og stöðugu gengi krónunnar vegna mikils innflæðis á erlendum gjaldeyri. Fjármálaráðherra boðar að ríkisstofnanir verða lagðar niður, sumar þeirra sameinaðar og fólki sagt upp störfum sem starfar hjá ríkinu. Allt séu þetta aðhaldsaðgerðir. Þá stefnir ríkisstjórnin og fjármálaráðherra að frekari einkavæðingu á ríkiseignum og opinberri þjónustu.

Áætlanir sem brjóta niður samfélagið
Formaður og stjórn Sameykis gagnrýnir þessar aðgerðir harðlega og segir Þórarinn Eyfjörð þessar fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar og fjármálaráðherra ekki boða velsæld né að verið sé að skapa hér öflugt samfélag til framtíðar. Þvert á móti, segir Þórarinn að fjármálaráðherra sé að ýta undir stéttarskipt samfélag og auka á erfiðleika launafólks, ekki síst láglaunafólks sem treystir á þjónustu stofnana ríkisins.

„Hér er ríkisstjórnin enn á ný að boða niðurskurð sem bitnar á okkar fólki og almenningi í landinu með því að skera niður í grunnþjónustunni og treysta á einkaframtakið og markaðslögmálið í þjónustu sem getur aldrei lotið slíkum lögmálum. Þessi grimma hugmyndafræði hægri nýfrjálshyggjustefnu ríkisstjórnarinnar hefur bitnað gríðarlega illa á íslensku samfélagi þar sem einkavædd grunnþjónusta verður alltaf kostnaðarsamari fyrir almenning á endanum. Leynt og ljóst er verið að auka byrðar og ábyrgð launafólks á rekstri ríkisins. Á fundi Bjarna kom skýrt fram að hann hefur ekki kjark né vilja til að sækja auknar tekjur í þann þátt samfélagsins sem veldur mestri þennslu í efnahagslífinu eða að stíga inn og stýra neinu í því sem tengist ferðamannaiðnaðinum.

Þetta er óábyrg efnahagsstjórn þar sem tekjustofnar ríkisins eru ekki nýttir sem skyldi og byrðarnar eru þyngdar hjá láglauna- og millitekjuhópunum sem greiða einfaldlega hlutfallslega hærri skatta en fólk í efstu lögum samfélagsins. Skattar eru lægri hjá þeim ríkustu sem greiða sér tekjur í formi fjármagnstekna og þannig er þeim hlíft við að greiða sanngjarnar skattgreiðslur til samfélagsins en um leið nýta sér alla þá þjónustu sem í boði er. Hluti af þessu víðaáttuvitlausa kerfi er að auðmenn og konur greiða ekki útsvar af þessum fjármagnstekjum og svíkjast þannig undan að standa undir grunnþjónustu sveitarfélaganna sem það býr í. Í raun er verið að brjóta niður innviðina og samfélagið allt. Við hjá Sameyki mótmælum harðlega þessum fyrirætlunum og enn einni aðför fjármálaráðherrans og ríkisstjórnarinnar að launafólkinu í landinu. Ef ríkisstjórnin væri að vinna fyrir almenning í landinu þá myndi hún leggja meira fé í uppbygginu innviðana og styrkja stofnanirnar, því þannig er best að forgangsraða fyrir öflugt samfélag til framtíðar, en það er augljóslega ekki á stefnuskrá þessarar ríkistjórnar að skapa hér velsæld og jöfnuð,“ segir Þórarinn Eyfjörð fomaður Sameykis.

Frétt af vef Sameykis.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí