Eftir breytingar á lögreglulögum vorið 2021 veita lögin, Ríkislögreglustjóra of rúma heimild til að deila lögregluvaldi með erlendu lögregluliði. Þetta segir í athugasemdum sem Umboðsmaður Alþingis sendi forseta Alþingis í gær, fimmtudag. Athugasemdirnar eru að nokkru leyti samhljóða þeim sem settar voru fram í þingumræðum um frumvarpið, meðal annars af Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur, þingmanni Pírata, sem segir að ráðherra hafi þá svarað spurningum sínum með skætingi.
Tilefni athugasemda Umboðsmanns nú er vera „vopnaðra og einkennisklæddra erlendra lögreglumanna hér á landi í tengslum við leiðtogafund Evrópuráðsins“ sem fram fór í maí, sl. Í fylgibréfi embættisins með athugasemdunum segir að ljóst sé af samskiptum við Dómsmálaráðuneytið að það líti svo á að framkvæmdin, það er útvistun umræddra verkefna til erlendra lögreglumanna, hafi verið í samræmi við heimildir ríkislögreglustjóra.
Í ljósi þeirrar túlkunar beinir umboðsmaður athugasemdum sínum til forseta Alþingis. Í fylgibréfinu tekur umboðsmaður fram að „lögregluvald heyri til kjarna framkvæmdarvaldsins og því þurfi að gera ríkari kröfur en ella til framsals slíkra heimilda“.
Erlent lögreglulið með hollustuskyldu við heimaríki
Umboðsmaður segir að túlkun ráðuneytisins gefi til kynna að orðalag ákvæðisins sé of rúmt „og til þess fallið að valda misskilningi um markmið þess og önnur atriði sem við eigi“ enda hafi verið gert ráð fyrir að heimildin yrði nánar afmörkuð með reglugerð frá Dómsmálaráðuneyti. Svör ráðuneytisins við fyrirspurnum umboðsmanns gefi hins vegar ekki til kynna að vænta megi, ef slíkar reglur verða yfirleitt settar, að „tekið yrði tilliti til þeirra sjónarmiða sem umboðsmaður hefði komið á framfæri“ – það er að heimildum Ríkislögreglustjóra til framsals á lögregluvaldi yrðu settar nægilegar skorður.
Í athugasemdunum sjálfum segir umboðsmaður að það væri óvenjulegt og íþyngjandi fyrir almenning „ef erlendir ríkisborgarar, klæddir einkennisbúningi erlends lögregluliðs, sinntu almennri löggæslu eða öðrum störfum sem fela í sér samskipti við almenning. Ég tel það ekki hagga þessu,“ segir umboðsmaður ennfremur, „þótt erlendir lögreglumenn kynnu að fá einhverja upplýsingagjöf og þjálfun um íslensk lög og aðstæður hér á landi. Þá verður ekki fram hjá því litið að þótt erlendir lögreglumenn starfi hér á landi undir stjórn íslenskra lögregluyfirvalda er um að ræða erlenda ríkisborgara sem eru hluti erlends lögregluliðs og þar af leiðandi með hollustuskyldu gagnvart sínu heimaríki. Geta að mínu mati vaknað ýmsar spurningar um ábyrgð slíkra manna samkvæmt íslenskum lögum svo og eftirlit með þeim og reikningsskap vegna starfa þeirra.“
Ráðherra svaraði spurningum með skætingi 2020
Á Facebook bendir Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, á að hún hafi í þingumræðum árið 2020 gert athugasemdir við þær breytingar á lögreglulögum sem þá voru áformaðar, á hliðstæðum forsendum og Umboðsmaður Alþingis byggir nú athugasemdir sínar við lögin eftir að frumvarpið varð að lögum. Hún spurði þá meðal annars hvaða skilning dómsmálaráðherra legði í „það að útlenskir lögreglumenn muni geta farið með lögregluvald hér á landi. Hvaða heimildir gætu þeir fengið? Hvaða rök standa að baki veitingu slíkra heimilda?“
Þórhildur Sunna segist aðeins hafa fengið „skilningsleysi og skæting til baka frá dómsmàlaràðherra Sjálfstæðisflokksins þann daginn“ enda skilji Sjálfstæðismenn ekki „mikilvægi skýrt afmarkaðra og takmarkaðra lagaheimilda, sèrstaklega þegar kemur að valdbeitingu hvers konar. Stefna þeirra snýst ekki um frelsi, heldur vald, valdsins vegna.“