Á meðan stjórnvöld segjast leita lausnar hefur heimilislausu flóttafólki þegar fjölgað

Stjórnvöld hafa enn ekki brugðist við neyð þeirra sem úthýst hefur verið úr húsnæði Útlendingastofnunar við Bæjarhraun, nær þremur vikum eftir að fyrst var vakin athygli á ástandi þeirra. Þetta skrifar Sema Erla Serdaroglu, formaður samtakanna Solaris, í grein sem hún birti á Facebook á mánudagskvöld.

Þrátt fyrir yfirlýsingar félagsmálaráðherra um að verið væri að leita lausnar, og að lausn myndi finnast í þeirri viku sem nú er liðin, er raunveruleikinn sá að heimilislausu flóttafólki hefur í millitíðinni fjölgað, segir Sema.

„Á sama tíma er athyglinni beint að öðrum hlutum,“ skrifar hún. „Ríkisstjórnin vill að við séum að tala um fangabúðir svo við séum ekki að tala um heimilislausa flóttafólkið sem þau dæma til þess að borða upp úr ruslatunnum, gera berskjölduð gagnvart misnotkun og niðurlægja algjörlega.“

Sema Erla segir að lausnin við mannúðarkrísunni sé einföld:

„Því með einu pennastriki, án nokkurrar fyrirhafnar, er hægt að veita Blessing, Mary, Esther og öðrum sem eru í sömu stöðu og þær, fastar á milli kerfa árum saman og geta ekkert farið, dvalarleyfi af mannúðarástæðum.“

Það er það minnsta, segir hún, „sem íslensk stjórnvöld geta gert eftir að hafa beitt þau ofbeldi og látið enn fleiri áföll dynja á þeim eftir að þau flúðu hingað í leit að öryggi.“

Texti greinarinnar fylgir í heilu lagi hér fyrir neðan.

„Að sjálfsögðu er verið að vinna í því að koma fólki af götunni!“

„Nú styttist í að þrjár vikur séu liðnar frá því að það var opinberað að íslensk stjórnvöld voru farin að bera flóttafólk út úr úrræðum yfirvalda og skilja það eftir á götunni, allslaust, án nokkurra bjarga eða leiða til að sjá fyrir sér. Flóttafólkið sem hefur verið hve lengst heimilislaust (af þeim sem við vitum af) hafa nú verið á götunni í meira en sex vikur.

Í þessar þrjár vikur eða svo hefur félagsmálaráðherra í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur sagt ítrekað að „svona hafi ekki átt að fara (þó það hafi verið augljóst), að hann harmi að þetta sé staðan og að verið sé að vinna að lausn!“ Þeir örfáu valdhafar sem einnig hafa tjáð sig segja að verið sé að vinna í málinu.

„Að sjálfsögðu er verið að vinna í því að koma fólki af götunni!“ sagði félagsmálaráðherra sunnudaginn 20. ágúst 2023. Í sama viðtali sagði hann að lausn myndi liggja fyrir í komandi viku. Síðan þá hefur sú vika liðið og rúmlega það og ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur ekki gert nokkurn skapaðan hlut til þess að koma flóttafólki af götunni.

Hvað tekur svona langan tíma?

Raunveruleikinn er sá að á þessu tímabili sem félagsmálaráðherra hefur reynt að sannfæra okkur um að verið sé að vinna að lausn á málinu hefur heimilislausu flóttafólki fjölgað. Iðrunin er ekki meiri en svo. Þau eru enn að setja flóttafólk á götuna.

Á sama tíma er athyglinni beint að öðrum hlutum. Ríkisstjórnin vill að við séum að tala um fangabúðir svo við séum ekki að tala um heimilislausa flóttafólkið sem þau dæma til þess að borða upp úr ruslatunnum, gera berskjölduð gagnvart misnotkun og niðurlægja algjörlega.

Þau eru að vona að samfélagið verði ónæmt fyrir því að fólk sem hingað kom í leit að skjóli og vernd frá stríði, átökum, ofbeldi og misnotkun sé nú beitt ríkisofbeldi, kerfisbundnum rasisma og mannréttindabrotum. Þau vona að við hættum að spá í þessu og ræða þetta. Að við gleymum og snúum okkur að næsta máli, eins og svo oft.

Það er alls ekki í boði.

Flóttafólk í þessum hópi er ekki í stöðu til að svara fyrir sig, þau eiga fáa málsvara og geta ekki tekið þennan slag af ótta við frekara ríkisofbeldi. Það er því undir okkur komið að standa vörð um mannréttindi þeirra!

Því við ætlum ekki að vera samsek í glæpum ríkisstjórnar vinstri grænna, sjálfstæðisflokksins og framsóknar gegn flóttafólki.

Lausnin á þessari mannúðarkrísu sem þau bjuggu til er mjög einföld.

Þeir einstaklingar sem um ræðir komu ekki af himnum ofan. Þeir voru í úrræði á vegum yfirvalda sem hægt væri að leyfa þeim að snúa aftur í þar til þau fá dvalarleyfi og finna sér heimili.

Því með einu pennastriki, án nokkurrar fyrirhafnar, er hægt að veita Blessing, Mary, Esther og öðrum sem eru í sömu stöðu og þær, fastar á milli kerfa árum saman og geta ekkert farið, dvalarleyfi af mannúðarástæðum.

Það er það minnsta sem íslensk stjórnvöld geta gert eftir að hafa beitt þau ofbeldi og látið enn fleiri áföll dynja á þeim eftir að þau flúðu hingað í leit að öryggi.

Síðan skulum við ræða það með hvaða hætti valdhafar þurfa að svara fyrir gjörðir sínar!“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí