Á skaganum Portland, sem teygir sig frá Englandi út á Ermarsund, búa um 13 þúsund manns. Þar var fyrr í sumar komið fyrir pramma sem margir telja táknrænustu birtingarmynd ómannúðlegrar útlendingastefnu breskra yfirvalda: á prammanum Bibby Stockholm hyggjast yfirvöld hýsa allt að 500 umsækjendur um alþjóðlega vernd, á meðan ráðið er fram úr í hvaða farveg umsóknir þeirra skuli rata.
Á morgun, miðvikudaginn 2. ágúst, var fyrirhugað að fyrstu fimmtíu umsækjendurnir yrðu fluttir á prammann. Úr því verður þó ekki að sinni, að því er virðist vegna ófullnægjandi eldvarna. Í frétt The Guardian um málið segir að aldvarnareftirlit sýslunnar hafi gert yfirvöldum viðvart um að úrbóta væri þörf. Meðal almennings er rætt um hættuna á að pramminn yrði „fljótandi Grenfell“ með skírskotun til fjölbýlishússins í London sem brann árið 2017, í eldsvoða sem varð 72 manns að bana.
Stjórnvöld taka fram að pramminn sé ekki fangelsi og þeir sem þar dvelja verði ekki í varðhaldi, heldur séu frjálsir ferða sinna í land. Þess sé þó óskað að þeir skrái hverja ferð sína frá prammanum og í hann aftur, til að gæta megi öryggis þeirra.