Dómsmálaráðherra hyggst leggja fram lagafrumvarp til að setja á laggirnar það sem hún nefnir nú lokabúsetuúrræði fyrir hælisleitendur. Þær hafa einnig verið nefndar lokaðar búðir, móttökubúðir, brottfararbúðir og endursendingarbúðir en um er að ræða aðstöðu til að hafa umsækjendur um vernd í varðhaldi þegar umsóknum þeirra hefur verið synjað, fram að brottvísun. Á ensku nefnist fyrirbærið Detention Centre, eða varðhaldsmiðstöð, í beinni þýðingu. „Fangabúðir“ segir Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata.
Þessi áform komu fyrst fram berum orðum í viðtali dómsmálaráðherra við mbl.is eftir hádegi í dag, þriðjudag. „Ég hef í hyggju að leggja fram að hér verði tekið upp lokabúsetuúrræði (e. detention center) eins og nágrannalönd okkar eru með. Það er þá húsnæði fyrir fólk sem hefur ekki hlotið dvöl í landinu. Þetta er húsnæði á meðan fólk bíður. Þetta húsnæði er takmörkunum háð,“ hefur miðillinn eftir ráðherranum.
Þess vegna var ríkisstjórnin tilbúin að henda fólki á götuna
„Ég held að hér sé að teiknast upp ákveðin mynd sem útskýrir hvers vegna ríkisstjórnin er tilbúin að henda fólki á götuna,“ sagði Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, í viðtali við sama miðil. „Samfélagið hefur ekki verið tilbúið að setja upp fangabúðir fyrir flóttamenn hingað til og nú á að kynna það sem einhvers konar vægari lausn en þá hörmungarlausn sem þau völdu með þessu útlendingafrumvarpi.“
Sú túlkun er í samræmi við frétt sem Samstöðin birti fyrir hádegi á þriðjudag, um hvernig meðlimir ríkisstjórnarinnar virtust ýja að lokuðum búðum undir flóttafólk sem „lausn“ á þeim vanda sem stjórnin skapaði með nýlegri breytingu á útlendingalögum. Forsætisráðherra, fjármálaráðherra og formaður Allsherjar- og menntamálanefndar höfðu þá öll tjáð sig á þann veg, án þess þó að leggja á það áherslu. Það liðu ekki klukkustundir frá umfjöllun Samstöðvarinnar þar til dómsmálaráðherra tilkynnti að hugur stjórnvalda stefnir nú að slíkri stofnun.