Sú spurning hefur vaknað hvort úthýsing umsækjenda um vernd úr húsnæðisúrræði yfirvalda, án þess að ljóst sé að þeirra bíði nokkur önnur úrræði eða möguleg framtíð, sé eins konar mælskubragð af hálfu stjórnvalda, tilraun til væntingastjórnunar til að kynna megi hugmyndina um „lokaðar búðir“ sem skárri og mannúðlegri kost. Slíkar hugmyndir hafa hingað til mætt mikilli andstöðu og mörgum þótt sú tilhugsun grimmdarleg að loka fólk inni sem ekki hefur unnið sér annað til saka en að leita verndar. Þessa dagana heyrast fulltrúar stjórnvalda ítrekað minnast á þennan möguleika á ný.
Katrín: Flest Schengen-ríkin eru með búðir
Nú síðast í dag, þriðjudag, hafði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra orð á þessum möguleika í viðtali við Heimildina. Þar talaði hún um „lokaðar búðir“ í samhengi við þá mannúðarkrísu sem hófst nú í sumar og vakti athygli um helgina, en þegar hefur tugum fólks verið úthýst úr húsnæðisúrræði fyrir umsækjendur um vernd.
Katrín lét ummælin um lokaðar búðir falla í samtali við blaðamann Heimildarinnar, en miðillinn hefur eftir henni:
„Og annarsstaðar eru lokaðar búðir fyrir þá sem fá synjun um vernd og sú leið hefur líka verið gagnrýnd hér.“ Þá bætti Katrín við: „Flest Schengen-ríkin eru með svokallaðar brottfararbúðir og þar getur fólk verið mjög lengi og er ekki frjálst ferða sinna.“ Spurð hvort henni hugnist sú tilhugsun bætti Katrín við: „Ég hef ekki verið hrifin af því“ – í þátíð.
Bryndís: Ég hef talað fyrir búðum
Í viðtali á Bylgjunni um liðna helgi varð Bryndís Haraldsdóttir fyrst stjórnarliða til að minnast á lokaðar búðir í samhengi við þær manneskjur sem nú hefur verið úthýst úr húsnæðisúrræðum yfirvalda fyrir umsækjendur um vernd á landinu. Það var í viðtali á Bylgjunni um liðna helgi, sem Bryndís lauk á orðunum:
„Svo kann að vera að við þurfum að huga að því annars vegar að setja upp einhvers konar endursendingarbúðir, ég hef líka talað fyrir móttökubúðum, og það er örugglega margt sem við eigum eftir að gera meira í þessum málaflokki.“
Í viðtalinu hafði þegar borið á góma ferð Allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis til Danmerkur og Noregs, þar sem þingmenn kynntust slíkum búðum: „Þar er komið inn á þetta, endursendingarbúðir,“ sagði Bryndís. „Danir hafa verið gagnrýndir sérstaklega fyrir það, því þær eru nú eiginlega svona ansi lokuð úrræði. Sumir hafa jafnvel líkt því við fangelsi, þó að dönsk stjórnvöld vildu nú ekki viðurkenna það þegar við vorum að spyrja þau út í það.“
Bjarni: Búðir alþekkt úrræði
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra var spurður um undirbúning að slíkum búðum í júní. Hann sagði þá hugmynd hafa verið kynnta fyrir ríkisstjórn og hann sæi fyrir sér að slíkar búðir gætu gagnast. Ráðherrann sagði biðstöðu fólks í þessari stöðu kosta 350 þúsund krónur á mánuði. Hugmyndin er þá væntanlega að í slíkum búðum, hvaða nafni sem þær nefnast, væri sá kostnaður enn lægri. „Móttökubúðir,“ sagði Bjarni, „eru úrræði sem er alþekkt á Norðurlöndunum, vel þekkt í Evrópu, til þess að stjórnvöldum takist að hafa stjórn á málsmeðferðinni.“
Fulltrúar ríkisvaldsins eru að jafnaði ekki hrifnir af því að fjöldi fólks sé án aðseturs, hvað þá án aðseturs og tækifæris til að ala sér önn. Óháð mannúðarsjónarmiðum felur slíkt ástand í sér augljósar áskoranir fyrir löggæslu. Ósennilegt má því teljast að stjórnvöld sjái núverandi stöðu fyrir sér sem lokaniðurstöðu í málinu.