Fjallaböðin í Þjórsárdal ágætis dæmi um allt það spilltasta í íslensku samfélagi

„Þessi framkvæmd er ágætis dæmi um allt það spilltasta og ógeðslegasta í íslensku samfélagi samtímans,“ skrifar Þór Saari á Facebook um fyrirhuguð „fjallaböð“ í Þjórsárdal. „Framkvæmdin er leyfð þrátt fyrir að svæðið sé friðlýst og þjóðlenda hvers umráð forsætisráðuneytið fer með.“

Síðustu daga hefur fréttastofa RÚV greint frá þróun fyrirhugaðra „fjallabaða“ í Þjórsárdal. Böðunum er ætlað að rísa innan friðlýsts landlagsverndarsvæðis þjóðlendu, á leigulóð í eigu ríkisins. Borað verður niður í Rauðukambahver, segir í frétt RÚV, til að ná sem heitustu vatni.

RÚV hefur eftir Náttúrufræðistofnun að það „skjóti skökku við að friðlýsingin hafi gert ráð fyrir framkvæmdunum, þar sem þeim fylgi rask á landslaginu“. Áætlað er að framkvæmdin kosti á bilinu 6 til 8 milljarða króna.

Um flokkshollustu og framkvæmdaleyfi

Fyrirtæki að nafni Rauðukambar hefur lóðina á leigu til fjörutíu ára, að sögn miðilsins, fyrir rúmar 400 þúsund krónur á mánuði. Í frétt RÚV kemur fram að ekki hefur verið samið um greiðslur til ríkisins fyrir vatnsnýtingu, en unnið sé að samningi um leiguverð fyrir nýtingu á vatni og vatnsréttindum.

Fyrirtækið Rauðukambar er í eigu Bláa lónsins. Fulltrúar beggja félaga tóku þátt í fyrstu skóflustungunni að fjallaböðunum í nóvember á síðasta ári, það er Grímur Sæmundsen forstjóri Bláa Lónsins og Magnús Orri Marínarson Schram, framkvæmdarstjóri Fjallabaðanna, ásamt Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og Haraldi Þór Jónssyni, sveitarstjóra Skeiða- og Gnúpverjahrepps.

Framkvæmdirnar við jarðböðin eru hafnar.

Þór bætir því við fréttina að eignarhaldið á félaginu sé „beintengt Sjálfstæðisflokknum og sérstökum vildarvini þess flokks sem var á þingi fyrir Samfylkinguna 2009-2013, Magnúsi Orra Schram sem er nú giftur inn í yfirstétt xD. Hann fékk hins vegar ekki framkvæmdaleyfi fyrir öllu þessu ógeði fyrr en hann hafði selt sálu sína og skríðandi auðmýktur dregið til baka stuðning sinn við að réttað skyldi yfir Geir H. Haarde fyrir Landsdómi.“

Hér vísar Þór til þess atviks fyrir um ári síðan, er Magnús Orri, fyrrverandi alþingismaður, birti afsökunarbeiðni á sínum hlut í málshöfðuninni gegn Geir Haard eftir efnahagshrunið 2008. Í september 2022 skrifaði Magnús á Facebook að hans afstaða þá hefði verið að rétt væri að vísa málum Geirs og fleiri ráðherra til Landsdóms. „Þeirri ákvörðun sé ég eftir.“ Hann væri nú orðinn sannfærður um að þau hefðu „unnið að heilindum við erfið störf í yfirþyrmandi aðstæðum.“ Í frétt Vísis um málið var til þess tekið hvernig framámenn í Sjálfstæðisflokknum lofuðu Magnús fyrir sinnaskiptin.

„Sá viðsnúningur,“ skrifar nú Þór Saari „eftir mjög frækilega og vel rökstudda þingsályktunartillögu sem hann sjálfur samdi og mælti fyrir, er lýsandi dæmi um það hversu lágt mennirnir leggjast fyrir smágróða. MOS verður smánaður maður alla ævi, Katrín Jakobsdótttir verður líklega síðasti formaður „VG“ en aðrir sem koma að framkvæmdinni, eigendur, og líklega einhverjir sveitarstjórnamenn líka, labba glaðir í bankann með gróða.“

Vinstrið styður böðulshátt og það græna orðið grátt

„VG“ skrifar Þór innan gæsalappa í færslunni og rökstyður með eftirfarandi orðum:

„Ef einver veit það ekki þá fara „Vinstri-græn“ með forsætisráðuneytið og báðar vísanirnar í nafngift flokksins eru einmitt gegn svona framkvæmd,“ skrifar Þór. „„Vinstrið“ styður nú böðulshátt gegn ómetanlegri náttúru í einhverjum baktjalda hrossakaupum við Sjálfstæðisflokkinn sem ekki hafa enn verið upplýst, og það „græna“ er einfaldlega orðið grátt og styður með beinum hætti eyðileggingu á óbyggðum landsins og hálendinu.“

Niðurlag færslunnar er tæpitungulaust: „Þetta er samtíðin okkar sem og framtíðin sem stjórnmál Fjórflokksins bjóða upp á, og ekki bara okkur heldur kynslóðum framtíðarinnar, börnunum ykkar og barnabörnum. Þetta er bara ógeðslegt, einu orði sagt.“

Færsla Þórs birtist á sunnudag. Í þeim athugasemdum sem birst hafa við færsluna nú á mánudag ber ekki mikið á andmælum.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí