Gengi þeirra íslensku sjávarútvegsfyrirtækja sem skráð eru á markað hækkuðu á þriðjudag, daginn sem matvælaráðherra kynnti niðurstöður verkefnisins „Auðlindin okkar“ sem hugmynd stjórnvalda er að verði grundvöllur sáttar um sjávarútveginn.
Bréf í Brim hf. seldust fyrir 78,80 krónur á mánudag en 80 krónur á þriðjudag. Bréf Iceland Seafood International hf. hækkaði úr 6 í 6,05 krónur. Gengi bréfa Síldarvinnslunnar hf. hækkuðu raunar þegar yfir undanfarandi helgi, úr 112,50 í 113 krónur og stóðu þar í stað milli daga, þegar skýrslan birtist. Þessi hækkun á gengi fyrirtækjanna hefur ekki gengið til baka nú tveimur dögum síðar.
Gengi allra félaganna hafði heldur leitað niður á við fram að því. Hækkunin milli daga er ekki veruleg en má að minnsta kosti hafa til marks um að skýrslan hafi ekki skotið fjárfestum og eigendum sjávarútvegsfyrirtækja skelk í bringu um afkomu sína. Það er í samræmi við allt sem hingað til hefur komið fram í umfjöllun Samstöðvarinnar. Í skýrslunni er gert ráð fyrir að aflamarkskerfinu, núverandi kvótakerfi, verði í grundvallaratriðum haldið óbreyttu. Þá er lagt til að rennt verði stoðum undir lagalega skilgreiningu kvóta sem einkaeignar með stjórnarskrárákvæði.
Efst á blaði þeirra breytinga sem ráðherra boðar er aukið gagnsæi í greininni og umhverfisvernd, einkum í þágu vistkerfa sjávar, sem hvort tveggja má líta á sem opinbera þjónustu við iðnaðinn sjálfan.