Samkvæmt úrskurði umboðsmanns alþingis er fortakslaust bann í reglugerð um greiðslu á styrkjum vegna hjálpartækja barna með fötlun til að njóta leiks og tómstunda engan veginn fullnægjandi samkvæmt lögum um sjúkratryggingar.
Úrskurðarnefnd velferðarmála hafði staðfest þá ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands að synja fötluðu barni um þríhjól á þeim forsendum að það væri til leik og tómstundaiðkunar.
Við setningu reglugerðarinnar hefði ráðherra þó boðað að fólk með fötlun gæti notið þeirra réttinda sem þeim ber að tryggja, þ. á m. að fötluð börn nytu réttinda til leiks og tómstunda til jafns við önnur börn og því ættu hjálpartæki til tómstunda ekki að falla utan við sjúkratryggingar. Þá hafði ráðherra einnig lagt svo línurnar að úrskurðarnefndin hefði nægilegt svigrúm til að leggja mat á hvort hjálpartæki væru nauðsynleg í dagsdaglega lífi eins og það hugtak var skýrt.
Samstöðin ræddi við Unni Helgu Óttarsdóttur formann Þroskahjálpar en hún segir það fremur regluna en hitt að börnum og fólki með fötlun sé synjað um hjálpartæki sem ekki séu beint til notkunar í skóla eða vinnu. „Það verður því forvitnilegt að fylgjast með málinu áfram og hvort álit umboðsmanns skili sér” segir Unnur.
Umboðsmaður segir niðurstöðu nefndarinnar hafa byggst á röngum grundvelli og vera í ósamræmi við lög. Fór hann fram á að málið yrði tekið aftur til meðferðar en heilbrigðisráðuneytið hafði þegar upplýst að unnið væri að breytingum á regluverkinu svo tilmælin yrðu skýrari.
Hægt er að skoða álit umboðsmanns hér: