Samráðsfundi 23 hjálparsamtaka og fulltrúa ríkisstjórnarinnar sem fyrirhugaður var í dag, mánudag, vegna þeirrar mannúðarkrísu sem upp er komin eftir gildistöku nýbreyttra Útlendingalaga, var frestað fram á miðvikudag, vegna annarra fyrirliggjandi funda Vinstri grænna. Þetta kom fram í kvöldfréttum RÚV á sunnudag, og virtist mega skilja sem svo að frestunin væri til komin af því Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumálaráðherra, væri með fullbókaða dagskrá framan af vikunni.
Hjálparsamtökin sögðust í yfirlýsingu í liðinni viku harma það að ekki hafi verið tekið tillit til varúðarorða hvað varðaði úthýsingu flóttafólks á götuna áður en lögin voru samþykkt en þau draga einnig í efa að framkvæmdin standist þær mannréttindaskuldbindingar sem innlend stjórnvöld hafa undirgengist.
Samtökin eru: Barnaheill, Biskup Íslands, FTA – félag talsmanna umsækjenda um alþjóðlega vernd, Geðhjálp, GETA hjálparsamtök, Hjálparstarf kirkjunnar, Hjálpræðisherinn á Íslandi, Íslandsdeild Amnesty International, Kvenréttindafélag Íslands, Mannréttindaskrifstofa Íslands, No Borders, Prestar innflytjenda, Þjóðkirkjunnni, Rauði krossinn á Íslandi, Réttur barna á flótta, Samhjálp, Samtökin 78, Solaris, Stígamót, UNICEF á Íslandi, UN Women á Íslandi, W.O.M.E.N. – samtök kvenna af erlendum uppruna, Þroskahjálp, ÖBÍ – heildarsamtök fatlaðs fólks á Íslandi.