Grimmar afleiðingar nýrra laga um útlendinga: umsækjendur um vernd missa allan rétt

Ljósmynd: Helgi J. Hauksson 2008.

Í kvöldfréttum RÚV á þriðjudag var greint frá stöðu Blessing Newton, nígerískrar konu sem flúði til Íslands fyrir fimm árum síðan, og hafði þá verið fórnarlamb mansals á Ítalíu. Henni var synjað um hæli hér. Þar sem hún neitaði að skrifa undir skjal um að hún færi úr landi innan þrjátíu daga frá undirritun hefur hún þegar verið svipt rétti til félagslegrar þjónustu, heilbrigðisþjónustu og húsnæðis, í samræmi við nýgerðar breytingar á útlendingalögum. Rætt var við Drífu Snædal, talskonu Stígamóta, sem sagði Blessing í mikilli hættu að verða aftur brotaþoli mansals, verði hún send úr landi. „Mér finnst bara mikilvægt að fólk viti hvaða afleiðingar þessi nýju útlendingalög hafa,“ sagði Drífa, „og hvaða hryllilega mannvonska það er gagnvart þolendum grófustu tegundar af ofbeldi.“

Að fórna fólki til að sýna hörku

Fréttin hefur vakið mikil viðbrögð. Þórunn Ólafsdóttir, sem um langt árabil hefur verið leiðandi í baráttu fyrir réttindum flóttafólks á Íslandi, skrifar á Facebook:

„Nýju útlendingalögin hafa tekið gildi. Hryllingurinn er ekki lengur bara varnaðarorð okkar sem sáum í hvað stefndi, nú ógna þau raunverulega lífum fólks sem fyrir var í ómögulegri stöðu. Það var alltaf tilgangur þeirra. Að fórna fólki til að sýna hörku og senda þannig skilaboð til þeirra sem gæti dottið í hug að leita hér skjóls. Stjórnvöld svífast einskis og leyfa sér enn að tala um þessi ógeðfelldu lög sem eitthvað framfaraskref. Á meðan er fólk eins og Blessing í bráðri lífshættu. Henni og fleirum á að fórna til að ríkisstjórnin geti montað sig af því að hafa náð að fækka þeim sem hingað leita skjóls. Á tímum sem aldrei fleiri hafa þurft á slíku að halda.

Er þetta virkilega samfélagið sem við viljum?“

Séra Toshiki Toma skrifar á sama vettvangi:

„Breyttu útlendingalögin leyfa að framleiða „götubúa“ (street living people) löglega. Ég tel að slíkt sé algert á móti grunstefnu okkar samfélags sem er við reynum að búa til samfélag þar sem hver þegn geti lifað mannsæmandi lífi. Til þess starfa félagráðgjafar, starfsfólk í heilsugæslukerfi, lögmenn, prestar og svo framvegis, er það ekki?“

„Ef ég dey er það ekki vandamál“

Þá bendir Toshiki Toma á það sem fram kemur í tengdri umfjöllun Vísis, að samkvæmt upplýsingum frá Ríkislögreglustjóra séu nú 25 manns í sambærilegri stöðu, að því leyti að dvelja í „úrræði“ því í Hafnarfirði sem stjórnvöld hafa ekki viljað nefna flóttamannabúðir, hafa ýmist misst rétt til grunnþjónustu eða eiga það yfirvofandi. Þar með er þó ekki öll sagan sögð, því það er, samkvæmt sömu heimild, aðeins helmingurinn af þeim 50 sem tilkynnt hefur verið um niðurfellingu þjónustu. Hinn helmingurinn hefur þegar farið af landinu „af sjálfsdáðum“ eins og það heitir ef lögregla beitir ekki handafli við brottvísun, eða „með aðstoð“ eins og það virðist nefnt þegar fólk er fært um borð í flugvél gegn eigin vilja.

Í umfjöllun Vísis er rætt við íraskan mann að nafni Mustafa. „Auðvitað eru þetta flóttamannabúðir,“ segir hann um úrræðið í Hafnarfirði. „Það eru myndavélar og mikið eftirlit. Myndavélarnar taka allt upp.“ Mustafa kom til Íslands árið 2018. Á meðan hann beið endanlegrar niðurstöðu í máli sínu fékk hann atvinnuleyfi, „vann í næstum ár og borgaði skatta“. Nú, þegar hann hefur verið sviptur réttindum og tilkynnti að hann verði að snúa aftur til Írak innan 30 daga, segir hann að honum sé sama hvað gerist. „Ég er dáinn að innan og er alveg sama. Ég fer aftur og ef ég dey er það ekki vandamál.“

Ljósmyndina sem fylgir fréttinni tók Helgi J. Hauksson við fyrstu mótmælasamkomu flóttafólks á Íslandi, vorið 2008.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí