Hinsegin dagar í boði Nasdaq? — Hinsegin heift gegn kapítalisma

Beint í kjölfar verslunarmannahelgi, raunar á frídegi verslunarmanna, mánudaginn næstkomandi, hefjast Hinsegin dagar í Reykjavík, sem eru fyrir löngu orðnir fastur punktur í dagskrá sumarsins hjá þúsundum íbúa og gesta borgarinnar, og má jafnvel segja að hafi að vissu leyti tekið við því hlutverki sem þjóðhátíðardagurinn gegndi á árum áður, að leiða mikinn mannfjölda saman til að gleðjast undir formerkjum sameiginlegra gilda.

Um þessar mundir ryður sér til rúms önnur hátíð sem haldin er samsíða Hinsegin dögum, einnig til varðstöðu um réttindi hinseginfólks og hinseginleika, en þó í mótspyrnu gegn ákveðnum þáttum meginhátíðarinnar. Forsprakkar þessarar hátíðar nefna hana Hinsegin heift. Hún var fyrst haldin árið 2019, síðan setti heimsfaraldurinn strik í reikninginn, en í ár birtist hún á ný af miklum þrótti.

Forskot á sæluna – með Nasdaq

Á vefsíðu hefðbundnu hátíðarinnar, Hinsegin daga, má meðal annars finna dagskrárliðinn: Nasdaq á Íslandi: Hátíðarbjalla á Skólavörðustíg. Í lýsingu þess viðburðar stendur:

„Nasdaq á Íslandi og Hinsegin dagar bjóða þér og þínum að vera við hátíðarbjöllu við regnbogann á Skólavörðustíg þriðjudaginn 8. ágúst, kl. 9:30. Hinsegin dagar í Reykjavík verða settir á hádegi 8. ágúst, en við tökum forskot á sæluna með því að hringja Kauphallarbjöllunni í nafni fjölbreytileikans þá um morguninn. Gestir okkar í ár verða Ragnhildur Sverrisdóttir, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar og Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar, en Ölgerðin vinnur nú að því að verða fyrst íslenskra fyrirtækja til að hljóta vottun Samtakanna ‘78 sem hinseginvænn vinnustaður. Við hvetjum ykkur öll til að mæta og fagna fjölbreytileika samfélagsins.“

„Hinseginvænt samfélag er and-kapítalískt“

Líklega er enginn annar viðburður á dagskrá Hinsegin daga sem birtir jafn skýrt hvaða þróun það er sem aðstandendur Hinsegin heiftar beina spjótum sínum gegn. Á vefsíðu Hinsegin heiftar má finna yfirlýsingu eða manifestó. Þar segir meðal annars:

„Við höfnum einstaklingshyggju og kapítalískri hugsun sem gengur út á að hver sé sinnar gæfu smiður, að græðgi sé dyggð og fátækt sjálfskaparvíti. Hinseginvænt samfélag er samfélag samhjálpar þar sem virði fólks er ekki talið í kapítalískum “afrekum” heldur í því hvernig við lyftum hvoru öðru upp, fögnum fjölbreytileikanum í öllum sínum myndum og tökum tillit til mismunandi þarfa ólíkra hópa og einstaklinga.

Við höfnum hugmyndafræði nýfrjálshyggju sem þrífst í skugga kapítalisma og veldur því að sífellt meira af grunnþjónustu samfélagsins færist í hendur einkaaðila. Undirliggjandi tilgangur nýfrjálshyggju er að stofnanavæða og viðhalda ójöfnuði, eignast það sem hægt er að setja verðmiða á og henda öllu öðru. Hinseginvænt samfélag er and-kapítalískt og heldur uppi gjaldfrjálsu, hágæða heilbrigðiskerfi, skólakerfi og almenningssamgöngum í samvinnu borgaranna. Við getum ekki barist fyrir hinseginvænu samfélagi án þess að tala um samband efnahags og stjórnmála og án þess að hafna kapítalisma og nýfrjálshyggju. Núverandi kerfi eyðileggur bæði samfélög og náttúru.“

Dagskrá Hinsegin heiftar hefst, líkt og dagskrá Hinsegin daga, mánudaginn 7. ágúst og stendur til sunnudagsins 13. ágúst.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí